Malta skiptir litum í Ísrael með Michaelu Pace og “Chameleon”.


Litla, sæta Malta er á nákvæmlega sama báti og við Íslendingar. Pínulítið eyríki einhversstaðar út í rassgati sem ÞRÁIR að vinna Eurovision og ELSKAR keppnina út yfir endimörk alheimsins. Hjá þeim er reyndar aðeins betra veður, þeir mega eiga það. En líkt og hjá okkur hefur sigurinn látið bíða eftir sér hjá Möltu. Þeir hafa verið með óslitið síðan 1991 (snéru þá aftur eftir 16 ára hlé) en hafa hæst komist í annað sætið en það gerðu þeir árið 2002 og svo aftur árið 2005. Seinni ár hefur hvorki gengið né rekið hjá Maltverjum en þeir hafa setið eftir í forkeppninni síðan 2016, þegar silfurdrottningin Ira Losco kom þeim í aðalkeppnina en endaði svo í 12.sæti. Og það er smá Iru Losco tenging í aðsigi…

Michaela Pace er fulltrúi Möltu í ár. Hún er nýorðin 18 ára gömul og sigraði X Factor: Malta með glæsibrag og ávann sér þar með rétt til að keppa fyrir hönd heimalandsins í Eurovision. Til margra ára hafði ríkisstöðin TVM haldið úti forkeppninni MESC (Malta Eurovision Song Contest) en eftir einstaklega slakt gengi seinustu ár ákvað TVM að prófa þessa nálgun og velja keppandann gegnum X Factor og svo lagið innbyrðis.

Michaela mun flytja lagið Chameleon en lagið er lauflétt popplag í anda söngkvenna á borð við Katie Perry og Miley Cyrus. Hressileg sólarsamba ef við viljum hafa það svo. Enda eru engir smáplebbar á bakvið lagið! Höfundarnir eru þeir Borislav Milanov (maðurinn á bakvið framlög Búlgaríu 2016, 2017 og 2018) og Svíinn Joacim Persson (sem m.a hefur samið lög fyrir Kylie Minogue, John Legend, Miley Cyrus, Jonas Brothers og svo mætti lengi telja), ásamt þeim Paulu Winger og Johan Alkaenas. Það er greinilega allt lagt undir hjá Möltu í ár, þeir ætla sér áfram hvað sem tautar og raular, og við getum sko vel unnt þeim þess og skiljum þá þrá manna best. En það er skemmtilegt frá því að segja að þegar Ira Losco sigraði MESC árið 2016, sigraði hún einmitt með lagi sem bar heitið Chameleon. Síðar ákvað TVM að slaufa því lagi og Ira flutti Walk on Water í Stokkhólmi, kasólétt og glæsileg. Rétt er að geta þess að þetta kamelljón er glænýtt og engin endurvinnsla, en engu að síður skemmtileg tilviljun. Nú er bara spurning hvort Michaela fleytir Möltu loksins upp í aðalkeppnina. Þangað til skulum við endilega dilla okkur við tóna maltneska kamelljónsins…