Tilfinningabúntið Jurijus sigrar í Litháen


Eftir viðburðaríka undankeppni eins og Litháum er einum lagið stóð Jurijus að lokum uppi sem sigurvegari með lagið Run with the lions. Textinn á að hvetja karlmenn til að vera opnari tilfinningalega, brjótast út úr búri niðurbældra tilfinninga og tjá ást sína.

Mörgum aðdáendum var brugðið við sigur Jurijus enda áttu þeir von á afgerandi sigri Moniku Marija með lagið Lights on. Svo fór ekki og sigraði Jurijus bæði símakosninguna og dómnefndarkosninguna á meðan að Monika lenti í öðru sæti í hvoru tveggja. Sumir vildu kenna því um að hún komst í úrslit með tvö lag, dró annað lag til baka og að aðdáendur hennar sem dáðu lagið Criminal hafi refsað henni fyrir þá ákvörðun og kosið Jurijus í staðinn. Við munum aldrei vita það en vonandi snýr Monika aftur enda virðist hún eiga nóg af góðum lögum til að senda í undankeppnina.

Það verður því Jurijus sem mun koma fram fyrir hönd Litháen í Eurovision í maí.