Chingiz Mustafayev mun segja sannleikann fyrir hönd Asera.


Kákasusþjóðin Aserbaídsjan er rétt svo að slíta barnsskónum í keppninni en þeir eru nú með í 12. skipti eftir mjög svo eftirminnilega byrjun í Belgrad árið 2008, þegar félagarnir Elnur og Samir fluttu/öskruðu/vældu lagið Day After Day og enduðu öllum að óvörum í 8. sæti! Aserum hefur yfirhöfuð gengið mjög vel í keppninni og státa t.a.m af einum sigri, einu 2. sæti og einu 3. sæti ásamt því að hafa verið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í topp tíu. En síðan 2014 hefur gengi þeirra verið fremur dapurt og hafa þeir ávallt hangið hægra megin á stigatöflunni og í fyrra komust þeir ekki einu sinni áfram þegar söngkonunni Aysel mistókst að selja Evrópu og Ástralíu fullorðinsbleyjuauglýsinguna X My Heart, (þið fattið tilvísunina ef þið horfið á atriðið). Hún varð þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera fyrsti aserski flytjandinn sem situr eftir í forkeppninni. Ái.

Í ár ætlar aserska sjónvarpið Íctimai TV að senda söngvarann Chingiz Mustafayev til leiks en hann mun flytja lagið Truth fyrir Eurovision-þyrsta áhorfendur. Chingiz (sem er reyndar alnafni frægs blaðamanns sem týndi lífinu við að flytja fréttir af stríðsástandinu sem skapaðist milli Armena og Asera í Nagorno-Karabakh stríðinu í byrjun 9. áratugarins og var í kjölfarið valin þjóðhetja í Aserbaídsjan, mjög mikilvægt að rugla þeim ekki saman) er 28 ára gamall og hefur fram til þessa aðallega sérhæft sig í þjóðlagatónlist og þá sér í lagi flamenco. Hann var valinn sem fulltrúi Aserbaídsjan eftir að Íctimai TV hrinti af stokkunum innbyrðis áheyrnarprufum í nóvember. Yfir 350 lög bárust og valið á flytjendum stóð á milli Chingiz og fjögurra annarra söngvara. Sérvalin dómnefnd valdi svo bæði lagið og flytjandann og var tilkynnt um valið þann 7.mars síðastliðinn.

Truth er hið áheyrilegasta popplag og fjallar um eitrað samband milli tveggja einstaklinga. Enn og aftur er snillingurinn Boris Milanov á ferðinni en hann er höfundurinn á bakvið lagið. Boris viðurkenndi að hann hefði verið svolítið efins um val Íctimai TV á Chingiz, þar sem hann hefur ekki mikið verið að flytja popptónlist, en skipti snarlega um skoðun þegar þeir hittust og sagði hann fullkominn flytjanda fyrir lagið þegar allt kom til alls. Ekki slæmur vitnisburður frá stórséníi eins og Boris Milanov. Hvað verður í Tel Aviv vitum við ekki en Chingiz er skrambi góður söngvari sem meiðir heldur ekkert augun í manni og Truth er grípandi lagasmíð. Þetta verður alla vega spennandi að sjá í vor.