Nútíma þjóðlagatónlist frá Póllandi


Pólverjar ákváðu í ár að breyta til og velja lagið sitt í Eurovision í innbyrðisvali og sleppa forkeppninni sem hefur verið haldin undanfarin ár (því miður því pólska forkeppnin síðustu ár hefur verið alveg hreint fínasta skemmtun). Pólska sjónvarpið auglýsti eftir lögum í byrjun árs til þátttöku í Eurovision. Úr innsendu lögunum valdi dómnefndin lagið Pali się – Fire of Love með þjóðlegu stúlknasveitinni Tulia. Lagið er samblanda af þjóðlagatónlist og klassík í nútímabúningi. Stúlkurnar syngja í svokölluðum „śpiewokrzyk“ stíl sem gæti á hinu ástkæra ylhýra útlagst sem hvítradda- eða öskursöngur.

Sveitin Tulia er skipuð stúlkunum Joanna Sinkiewicz, Dominika Siepka, Patrycja Nowicka og Tulia Biczak. Þær skutust upp á stjörnuhimininn árið 2017 þegar þær gerðu ábreiðu af 80’s smellinum Enjoy the Silence. Ábreiðan vakti mikla athygli eftir að hljómsveitin Depeche Mode, sem gerði lagið frægt á áttunda áratugnum, deildi laginu á síðunni sinni. Síðan þá hafa stúlkurnar í Tuliu verið áberandi og meðal annars spilað á hinni goðsagnakenndu Sopot hátíð sem var í kalda stríðinu andsvar austantjaldslandanna við Eurovision og kallaðist Intervision, en er í dag ein af stærstu tónlistarhátíðum Póllands.

Stúlkurnar í Tuliu eru mjög hrifnar af Hatara og í viðtali við Dziennik Eurowizyjny sögðu þær: „Ísland sýnir mikið hugrekki. Við metum hugrekki og sjálfstæði í listum. Við tengjum við Hatara því burtséð frá aðfinnslum annarra þá göngum við til leiks með okkar efni sem er bara eins og okkur líður en ekki það sem fjöldinn væntir. Sumum mun líka það öðrum ekki – okkur líkar við Hatara, ekki bara vegna hugrekkis, heldur vegna heimsspekilegs texta og fallegs viðlags. Hatari hljómar eins og samblanda af Rammstein og Depeche Mode.“ Þær eru einnig mjög hrifnar af hinum ítalska Mahmood og portúgalska Conan Osiris.

Pólverjar hófu þátttöku í Eurovision árið 1994 og lentu eftirminnilega í öðru sæti í frumraun sinni. En þrátt fyrir magnaða innkomu hefur Pólverjum ekki gengið svo vel í Eurovision eftir það. Árið 2011, eftir að Magdalenu Tul mistókst að komast í úrslit, ákváðu Pólverjar að taka sér hlé frá þátttöku því það var í sjötta skipti í sjö tilraunum sem Pólverjum mistókst að komast í úrslit eftir að undankeppnirnar voru kynntar til sögunnar. Pólverjar hófu að taka þátt aftur árið 2014 og hafa síðan þá komist í úrslit í fjögur skipti – en Groome og Lukas Meijer komust því miður ekki í úrslit í Lissabon í fyrra. Af þeim tíu atriðum sem hafa náð bestum árangri fyrir Pólverja eru átta sem eru skipuð konum sem forsöngvörum – vonandi veit það á gott svo Tulia komist áfram í úrslitin í Tel Aviv 18. maí!