Leyndardómsfull vakning að hætti Belga í ár


Fulltrúi Belga í ár, Eliot Vassamillet, var innbyrðis valinn af ríkissjónvarpsstöðinni RTBF (þjónar frönskumælandi hluta Belgíu). Eliot þessi er 18 ára gamall og vakti athygli fyrir þátttöku sína í The Voice Belgique í fyrra.

Lagið Wake Up er eftir Pierre Dumoulin og flytjandann. Pierre þessi er ekki ókunnur Eurovision en hann var einn lagahöfunda City Lights sem Blanche flutti í Kænugarði 2017 auk þess sem hann fer fyrir belgíska bandinu Roscoe. Hann ku einnig eitthvað hafa samið fyrir Kristian Kostov, söngvarann sem keppti fyrir Búlgaríu 2017. Umfjöllunarefni lagsins Wake Up er á sömu nótum og finnska framlagið í ár, en þeir Eliot og Pierre vilja hvetja ungt fólk til að vera virkt og sameinast fyrir betri heim með jákvæðni og vináttu að vopni. Í nýlegu viðtali vildi Eliot ekki gefa miklar upplýsingar um sviðsetninguna en sagði að hún yrði ekki eins myrk og í tónlistarmyndbandinu.

Eliot keppir í fyrri undankeppni Eurovision í Tel Aviv eins og okkar menn í Hatara. Eins og veðbankar standa í dag er honum spáð í úrslitin 18. maí. Belgía hefur tekið þátt í Eurovision frá upphafi keppninnar árið 1956 en þeirra fyrsti og eini sigur kom í hús 1986, sælla minninga, þegar hin þrettán ára gamla Sandra Kim sigraði með J’aime la vie. Síðustu ár hefur gengi Belga verið nokkuð upp og ofan en þeir hafa komist fimm sinnum upp úr undankeppninni síðustu tíu ár. Það verður þó að gefa þeim að þeir eru búnir að eiga ákaflega eftirminnileg framlög síðustu ár, fyrrnefnt City Lights árið 2017, hressa diskósmellinn What’s The Pressure sem Laura söng árið 2016, Rhythm Inside árið 2015 og síðast en ekki síst Me and My Guitar  sem Tom Dice flutti í Osló 2010.