Býrð þú á númer 22?


Næst ætlum við að fjalla um framlag Íra í ár. Írar eru eins og flestir eflaust vita sigursælasta Eurovisionþjóðin með sjö sigra frá fyrstu þátttöku árið 1965, þar af komu fjórir á fimm árum á tíunda áratugnum. Það verður seint toppað. Hins vegar hefur gengið ekki verið eins gott á nýrri öld og hafa Írar aðeins þrisvar náð inná topp tíu frá og með árinu 2000. Það gekk þó betur í fyrra en leit út fyrir í upphafi en lagið Together kryddaði heldur betur Eurovisionvikuna. Áður en það keppti áttu fáir von á að það færi áfram. En þetta annars ágæta lag með fínan söngvara og síðast en ekki síst frábæra sviðsetningu komst áfram og voru Írar um tíma í 3. sæti í veðbönkum og maður vissi ekki hvaða ár væri eiginlega! Þeir enduðu hins vegar í hinu rómaða 16. sæti á úrslitakvöldinu.

En að laginu í ár. Það heitir 22 og það er Sarah McTernan sem flytur.

Sarah er 25 ára gömul, frá Scarriff og vakti fyrst athygli þegar hún tók þátt í The Voice of Ireland árið 2015. Höfundar lagsins eru allir hollenskir; Jaienck Devy, Maria Sondeijker og Roel Rats. Lagið er dæmigerður ástarsöngur og vísar talan 22 í húsnúmer þess sem Sarah ann. Ekki fór fram nein keppni á Írlandi í ár, írska ríkissjónvarpið RTÉ valdi Söruh og lagahöfundana til verksins.

Titillinn er sérstakur í Eurovisionsögunni. Aðeins eitt lag hefur áður keppt í Eurovision sem er bara tala, en það er úkraínska sigurlagið frá 2016, 1944. Lagið er líka bara tveir stafir og það höfum við líka sjaldan séð í Eurovision – og langt síðan við sáum það síðast. En það eru samt nokkur til; Si frá Ítalíu 1974, Él frá Spáni 1982, Hi frá Ísrael 1983 og Go frá Bretlandi 1988. Si og Go náðu bæði öðru sæti. Nú er spennandi að sjá hvernig Írum gengur í ár.