Árið 2017 vann Joci Pápai ungversku undankeppnina A Dal með hinu tilfinningaríka lagi Origo sem fjallaði um það hvernig það væri fyrir mann af Róma ætt að verða ástfanginn af hvítri konu. Lagið heillaði áhorfendur á sviðinu í Kænugarði og svo fór að Joci varð fyrstur manna af Rómafólki að komast í úrslit Eurovision. Þetta var einnig í fyrsta sinn sem lag á Róma tungumáli var flutt í Eurovision. Hann endaði í 8. sæti sem er þriðji besti árangur Ungverja í keppninni.
Joci ákvað að snúa aftur í ár og í þetta sinn með lagið, Az én apám, sem fjallar um æskuminningar hans og samband hans við föður sinn. Hann var þó ekki eini keppandinn sem sneri aftur en András Kallay Sáunders var að reyna við sigur í þriðja sinn síðan hann vann 2014. Í þetta sinn sem dúó í samstarfi við rapparann Slashkovic.
En að lokum var það Joci sem stóð uppi sem sigurvegari og vann bæði hug og hjörtu dómnefndar og almennings. Hann er fyrstur til þess að koma fram fyrir hönd Ungverja í tvígang og það verður áhugavert að sjá með hvort hann nær að fylgja eftir góðum árangri 2017 á Eurovision sviðinu í Tel Aviv í ár.