Conan Osíris og “Telemóveis” til Tel Aviv fyrir hönd Portúgal.


Eftir alveg hreint dásamlega keppni í Lissabon seinasta vor þurftu gestgjafarnir að bíta í það súra epli að enda í seinasta sæti á heimavelli þegar að þær Claudia Pasqoal og Isaura hlutu ekki náð fyrir augum Evrópu og Ástralíu. Ókurteisi á alþjóðavettvangi! En Portúgalar eru einstaklega afslöppuð þjóð og voru nú sossum ekkert að kippa sér mikið upp við þetta. Þeir renndu af stað með glænýja Festival de Canção í vetur þar sem þeir völdu síðan Conan Osíris sem fulltrúa sinn í Tel Aviv með lagið Telemóveis en hann sigraði keppnina þá arna með yfirburðum.

Það er óhætt að segja að Telemóveis sé eitt allra sérstakasta framlag ársins og Conan einn af athyglisverðari og skemmtilegri flytjendunum. Hann heitir réttu nafni Tiago Miranda og er nýorðinn þrítugur. Það mætti segja að hann sé óneitanlega sérvitur tónlistarmaður. Hann sækir innblástur sinn m.a í teknó og hina ævafornu portúgölsku tónlistarhefð, Fado, ásamt því að daðra við alternative og heimstónlist af ýmsum toga. Lagið Telemóveis, sem Conan segir að fjalli um þessa þrá okkar til að ná sambandi við burtgengna ástvini, er dásamlega undarleg blanda af öllu ofantöldu. Ef ég ætti að útskýra lagið á einhvern hátt, mætti segja að þetta væri eins og að vera boðin á massíva Fado tónleika, nema þeir væru haldnir í Forboðnu Borginni í Kína!

Portúgalar eru, þegar þetta er skrifað, í 9. sæti veðbanka yfir líklegustu löndin til að vinna Eurovision í maí. Hvort af því verður er erfitt að segja. Fyrir mitt leyti er ekkert því til fyrirstöðu að skreppa aftur til Portúgal á næsta ári en hvort Evrópa og Ástralía eru sama sinnis mun koma í ljós. Það er alla vega alveg á kristaltæru að Telemóveis er langt frá því að vera eitt af þessum auðgleymanlegu popplögum og verður án efa eitt af eftirminnilegustu framlögum ársins 2019!