Það verður heitt og seiðandi frá Sviss í Tel Aviv


Svisslendingum er greinilega margt til lista lagt. Þeir eru ekki bara eldklárir bankamenn (öhömm) með sjóðandi heitt og saðsamt fondue – heldur líka svona glæsilegan suðrænan sjarmör sem verður fulltrúi Sviss í Tel Aviv í vor. Luca Hänni heitir söngvarinn og er 24 ára gamall. Hann kemur úr músíkalskri fjölskyldu og spilar á fjölda hljóðfæra, trommur, gítar og píanó þar á meðal. Luca starfar sem múrari og finnst ekkert skemmtilegra en að óhreinka hendurnar (annað öhömm). Hann hóf feril sinn 17 ára gamall eftir að hann vann Deutschland sucht den Superstar, þýsku útgáfuna af Idol. Fyrsta smáskífa Luca náði toppsætinu í Þýskalandi, Austurríki og Sviss og fylgdi hann eftir með túrum eins og vera ber. Luca er einnig handhafi ýmissa tónlistarverðlauna, eins og þeirra svissnesku, auk Barnatónlistarverðlaun í LA sem hann hefur unnið tvisvar. Svo er hann víst ótrúlega viðkunnanlegur náungi og gefur sig að aðdáendum sínum. Þar fyrir utan starfar hann einnig sem fyrirsæta, hannar tískufatnað og gefur út tímaritið Stories. Og ef þetta var ekki nóg fyrir ykkur þá vann hann dansþáttinn ógurlega Dance Dance Dance í Þýskalandi 2017 og tilkynnti dómnefndarstigin fyrir hönd Sviss í Eurovision sama ár. Talandi um að vera over-achiever!

Lagið She Got Me er eftir Jon Hällgren og Lukas Hällgren og texti er eftir Laurell Barker (semur einnig breska og þýska júrólagið í ár), Mac Frazer, Luca Hänni, Jon Hällgren og Lukas Hällgren. Lag og flytjandi var valinn af 100 manna áhorfenda panel og 20 manna alþjóðlegri dómnefnd þar sem meðal annarra sátu Helga Möller, Ruth Lorenzo (Spánn 2014), Ovi (Rúmenía (2010 og 2014) og Tinkara (Slóvenía 2014). Með laginu She Got Me vonast Luca til að dreifa gleði meðal ungs og eldra fólks – og það er ekki verra ef menn dilla aðeins rassinum með!

Svisslendingar hafa ekki riðið feitum hesti frá Eurovision undanfarið og einungis komist í aðalkeppnina tvisvar á síðustu tíu árum. Það er þó ákveðinn dýrðarljómi sveipaður Sviss í Eurovision því fyrsta Eurovisionkeppnin var haldin þar í Luganoborg 1956 en þá keppni unnu þeir með laginu Refrain sem flutt var af Lys Assia. Svisslendingar unnu öðru sinni 1988 með laginu Ne partez pas sans moi en eins og lesendur FÁSES.is varð það flutt af Celine nokkurri Dion.