Rússar senda draumaliðið með Sergey Lazarev í broddi fylkingar.


Ó já! Þið heyrðuð rétt, Sergey Lazarev er mættur aftur á svæðið með sannkölluðu draumateymi með sér. Í febrúar sl. tilkynnti rússneska sjónvarpið að Sergey myndi snúa aftur í Eurovision sem fulltrúi heimalandsins Rússlands til að flytja lag eftir Philip Kirkorov, Dimitris Kontopoulos og Sharon Vaughn. Veðbankarnir hreinlega trylltust enda er Sergey mikils metinn í Eurovision heiminum eftir að hafa eftirminnilega sigrað símakosningu en endað í þriðja sæti í Eurovision árið 2016 með laginu You Are The Only One. En það vill einmitt svo skemmtilega til að það lag var einnig úr smiðju þeirra fyrrnefndu Philips og Dimitris. Það er ekki ofsögum sagt að þau Sergey, Philip, Dimitris og Sharon séu sannkallað draumateymi því að þau hafa komið að mörgum af stórfenglegustu Eurovision atriðum sögunnar (sjá ótæmandi lista hér fyrir neðan.)

Það var mikil eftirvænting meðal aðdáenda á laugardaginn þegar lagið var loksins frumflutt. Lagið, sem heitir Scream, er orkumikil ballaða sem gerir sönghæfileikum Sergeys góð skil. Myndbandið við lagið er ævintýralegt og dramatískt eins og lagið. Eftir að lagið var frumflutt féllu Rússar reyndar niður í annað sæti í veðbönkunum á eftir hinum hollenska Duncan Laurence. Hvort sem veðbankarnir hafa rétt fyrir sér eða ekki er víst að draumateymið mun mæta til leiks í Tel Aviv með skothelt atriði, enda Philip Kirkorov einn epískasti höfundur Eurovision atriða allra tíma!

Rússar hafa frá því þeir hófu fyrst keppni árið 1994 tekið 21 sinni þátt í Eurovision og í 17 skipti endað á efri helmingi stigatöflunnar. Rússar hafa einu sinni sigrað Eurovision og þangað til árið 2018 voru Rússar ein af þeim þjóðum sem hafði aldrei mistekist að komast upp úr undankeppnunum. Það voru mikil vonbrigði fyrir þá þegar Julia Samoylova komst ekki í úrslitin í Lissabon í fyrra. Draumateymið sem stendur á bakvið lagið Scream hefur enn ekki unnið Eurovision. Þrátt fyrir að hafa aldrei sigrað vekja þau gríðarlega athygli með lögunum sem þau hafa komið að í Eurovision. Er árið 2019 árið sem draumateymið sigrar loksins Eurovision?

Önnur lög sem draumateymið hefur komið að:

  • Aserbaísjan 2018 – Aisel – I X My Heart (Höfundur: Sandra Bjurman, framleitt af Dimitris Kontopoulus og Tim Bran) 11. sæti í undankeppni Eurovision.
  • Moldóva 2018 – DoReDos – My Lucky Day (Höfundar: Philip Kirkorov og John Ballard) 10. sæti í Eurovision.
  • Grikkland 2017 – Demy – This Is Love (Höfundar: Dimitris Kontopoulos, Romy Papadea og John Ballard) 19. sæti í Eurovision.
  • Rússland 2016 – Sergey – You Are The Only One (Höfundar: Philipp Kirkorov, Dimitris Kontopoulos, John Ballard and Ralph Charlie) 3. sæti í Eurovision.
  • Rússland 2014 – Tolmachevy systurnar – Shine (Höfundar lags Philipp Kirkorov og Dimitris Kontopoulos, texti eftir John Ballard, Ralph Charlie og Gerard James Borg) 7. sæti í Eurovision.
  • Svíþjóð 2014 – Helena Paparizou – Survivor (Höfundar: Bobby Ljunggren, Henrik Wikström, Karl-Ola Kjellholm og Sharon Vaughn) 4. sæti í Melodifestivalen sænsku forkeppninni.
  • Aserbaísjan 2013 – Farid Mammadov – Hold Me (Höfundar: Dimitris Kontopoulus, John Ballard og Ralph Charlie) 2. sæti í Eurovision.
  • Írland 2012 – Jedward – Waterline (Höfundar: Nick Jarl og Sharon Vaughn) 19. sæti í Eurovision.
  • Grikkland 2009 – Sakis Rouvas – This Is Our Night (Höfundar: Dimitris Kontopoulos, Craig Porteils og Cameron Giles-Webb) 7. sæti í Eurovision.
  • Úkraína 2008 – Ani Lorak – Shady Lady (Höfundar: Karen Kavaleryan, Philipp Kirkorov og Dimitris Kontopoulos) 2. sæti í Eurovision.
  • Hvíta-Rússland 2007 – Dmitry Koldun – Work Your Magic (Höfundar: Philip Kirkorov, Dimitris Kontopoulos (lagahöfundur) og Karen Kavaleryan (textahöfundur)) 6. sæti í Eurovision)