MELODI GRAND PRIX eða MGP Norge 2019 verður haldið 2. mars 2019 í Osló Spektrum. Norðmenn hafa tekið þátt í Eurovision frá því 1960 en aðeins þrisvar hefur það gerst að þeir hafa ekki haldið MGP keppnina.
Árið 1970 voru nokkur lönd sem tóku ekki þátt til að mótmæla stigakerfinu eftir að fjögur lönd urðu jöfn að stigum í efsta sæti árið 1969. Þetta voru Noregur, Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Portúgal. Árið 1991 var sú ákvörðun tekin að búa til hljómsveitina Just 4 fun með Eiríki Haukssyni innanborðs vegna þess að ekkert þeirra 140 laga sem send voru inn þóttu standast gæðakröfur norska sjónvarpsins. Árið 2002 fengu þeir svo ekki að keppa vegna slakrar niðurstöðu frá árinu áður.
Snúum okkur nú að keppninni í ár. Yfir 1000 lög voru send í keppnina. Af þeim voru 60 lög lögð fyrir hóp hlustenda sem valdi síðan 10 lög í sjálfa keppnina. Stig Karlsen, framkvæmtarstjóri keppninnar, óskaði eftir því að keppendur væru blanda af þekktum tónlistarmönnum sem og fersku nýju hæfileikafólki.
Kåre Magnus Bergh og Heidi Ruud Ellingsen munu leiða okkur í gegnum keppnina. Kåre er þekktur sem kynnir fyrir ýmsa sjónvarpsþætti og Heidi er leikkona og þetta er í fyrsta skiptið sem hún kynnir í MGP. Sigurlagið verður valið í símakosningu og alþjóðleg dómnefnd mun einnig hafa áhrif á úrslitin. Hægt verður að horfa á keppnina á NRK 1 og keppnin verður líka á netinu tv.nrk.no.
Vindum okkur nú að lögunum. Norðmenn eiga góðan möguleika að ná langt í ár enda fjölbreytt úrval laga í keppninni að þessu sinni.
Chris Medina flytur lagið We Try. Lag og texti: Chris Medina, Jason Gill, Tormod Løkling og Julimar Santos.
Chris Medina tók þátt í American Idol árið 2010. Hann gaf út lagið What are Words sem sló í gegn í mörgum löndum, þar á meðal Noregi. Chris ólst upp í Chicago en hefur síðustu árin búið í Osló ásamt norsku kærustunni sinni og tveggja ára dóttur.
Carina Dahl flytur lagið Hold Me Down. Lag og texti: Ashley Hicklin, Jeroen Swinnen, Pele Loriano, Laurell Barker og Laura Groeseneken.
Carina Dahl tekur nú þátt í þriðja skipið í MGP. Hún flutti lagið Guns and Boys árið 2011 og Sleepwalking árið 2013. Hún er frá Þrándheimi og hefur unnið sem módel og tók líka þátt í Big Brother árið 2006. Hún var sú síðasta sem var kosin út eftir að hafa verið inni í húsinu í heila 107 daga.
Ingrid Berg Mehus flytur lagið Feel. Lag og texti: Ingrid Berg Mehus, Bjørnar Hopland og Anthony Modebe.
Ingrid ólst upp í Jessheim, rétt fyrir utan Osló. Hún fékk sína fyrstu fiðlu sjö ára og fór fljótlega að spila í hljómsveitum í Jessheim. Hún fór í tónlistarnám í menntaskóla og síðan fór hún í klassíkina í Barratt Due Institute of Music í Osló. Fjölmiðasögur herma að lagið Fairytail hafi verið um hana og að Alexander Rybak og hún hafi verið kærustupar. Þau hafa ábyggilega slegið á létta rómantíska strengi.
Erlend Bratland flytur lagið Sing for You. Lag og texti: Erlend Bratland, Arvid Solvang og Nils Egil Brandsæter.
Erlend Bratland tók þátt í Norway’s got Talent árið 2008 og sigraði með laginu Lost með Anouk. Hann var tilnefndur til Spellemannsprisen fyrir nýliða sama ár. Árið 2015 lenti hann í öðru sæti í MGP með laginu Thunderstruck.
KEiiNO flytja lagið Spirit in the Sky. Lag og texti: Tom Hugo Hermansen, Alex Olsson, Fred Buljo, Henrik Tala, Alexandra Rotan.
Hljómsveitin er skipuð þeim Tom, Alex og Fred. Lagið er innblásið af baráttu fyrir jafnrétti án tillits til þjóðernis, kyns og kynhneigðar. Síðan fengu þeir til liðs við sig Henrik Tala og söngkonuna Alexöndru. Alexandra var fyrst þekkt í MGP Junior og Norsku Idol keppninni. Hún komst í fjögurra laga úrslit í MGP í fyrra með laginu You Got Me ásamt Stellu Mwangi. Fred Buljo er frá Kautokeino Hann var fyrst þekktur fyrir þátttöku sinni Norway’s Got Talent með Sama-rapp-hljómsveitinni Dulova Duottar. Tom Hugo tók þátt í MGP í 2013 með laginu Det er du og 2018 með laginu I Like I Like I Like. Hann samdi einnig Hinsegin lagið fyrir Oslo Pride 2018 ásamt eiginmanni sínum Alex.
Anna-Lisa Kumoji flytur lagið Holla. Lag og texti: Ashley Hicklin, Jeroen Swinnen og Maria Broberg.
Anna-Lisa Kumoji ólst upp í Asker fyrir utan Osló en hún á rætur að rekja til Ghana. Faðir hennar er einnig tónlistarmaður og fyrstu minningar hennar eru í örmum föður síns á meðan hann söng og dansaði við lag samið í hennar nafni. Hún stundaði tónlistarnám í menntaskóla og síðan lá leiðin í Baardar Academy í Osló. Hún hefur sungið í söngleikjum eins og The Book of Mormon og Flashdance.
Kjetil Mørland flytur lagið En Livredd Mann. Lag og texti: Kjetil Mørland.
Kjetil Mørland er frá Grimstad í suður Noregi, sama stað og leikritaskáldið Ibsen. Hann býr í Bretlandi og er í hljómsveit sem heitir Absent Elk. Hann sigraði í MGP árið 2015 með lagið A Monster Like Me sem hann söng með Debrah Scarlett og lentu þau í áttunda sæti. Hann samti einnig lagið Who We Are sungið af Rebeccu sem lenti í öðru sæti í MGP 2018. Lagið sem hann flytur í ár er fyrsta lagið sem hann gefur út á norsku.
Adrian Jørgensen flytur lagið Bubble. Lag og texti: Jonas McDonnell, Aleksander Walmann og Kjetil Mørland.
Adrian Jørgensen er frá bænnum Bindal í norður Noregi. Ásamt því að vinna sem tónlistarmaður starfar hann sem sjómaður. Hann tók þátt í The Voice árið 2013 og er enginn nýgræðingur í Eurovision því hann söng bakraddir fyrir Aleksander Walmann í MGP í fyrra og einnig með JOWST í Kænugarði 2017.
D´Sound flytja lagið Mr. Unicorn. Lag og texti: Kim Ofstad, Jonny Sjo, Mirjam Johanne Omdal og Magnus Martinsen.
D´Sound hafa spilað stórt hlutverk í Norska pop bransanum síðan 1997. Hljómsveitin var stofnuð 1993 og hefur gefið út einar 6 plötur með upprunalegum hljómsveitarmeðlimum. Mirjam Omdal tók við af Simone Eriksrud sem söngvari hljómsveitarinnar í fyrra. Þau hafa einnig samið lög fyrir aðra. Eitt þeirra laga þekkjum við mæta vel því Kim Ofstad samdi lagið Glow sem Madcon fluttu á Eurovision í Osló 2010.
Hank Von Hell flytur lagið Fake It. Lag og texti: Hank Von Hell, Andreas Werling, David Johannesson og Eric Bäckman.
Hank Von Hell var fyrst og fremst þekktur fyrir að vera í hljómsveitinni Turbonegro. Hann hefur lifað lífinu eins og maður segir. Sagt er að hann hafi fæðst baksviðs og hafi aldrei yfirgefið bygginguna. Samt segist hann hafa eytt síðustu níu árum í hollenskum fjöllum (já, þið lásuð það fyrst hér, hollenskum fjöllum) að æfa jóga og þjálfa sig í Ninja tækni. Dyggir aðdáendur hafað beðið lengi eftir því að hann snúi tilbaka í tónlistarheiminn og það gerir hann svo sannarlega núna í MGP.