Krúttpopp á hærri stól í Danmörku

Leonora til Tel Aviv

Af hærri jörð upp á hærri stól, já góðir hálsar, Danir eru búnir að velja sér lag. Eftir stórskemmtilega 10 laga keppni í Boxen í Herning kom það í hlut hinnar tvítugu Leonoru að bera Dannebrog til Ísrael. Rasmussen hvatti fólk til að taka stökk til hærri jörð í fyrra en allir með örlítinn grunn í landafræði vita að það er ekki mikið um hærri jörð í Danaveldi. Þeir kjósa jú að kalla Himmelbjerget fjall en við vitum öll að það eru bara minnimáttar-komplexar. Leonora hefur greinilega verið meðvituð um að hærri jörð væri ekki málið og þess vegna brá hún á þann leik að koma fram á hærri stól, stól sem sennilega slagar hátt í Himmelbjerget.

Leonora bar sigur úr býtum í þriggja laga úrslitum með 42% atkvæða. Grænlenskuskotna lagið League of Light með Julie og Ninu lenti í 2. sæti með 35% atkvæða og Sigmund lenti í 3. sæti með lagið Say My Name og 23% atkvæða. Símaatkvæði giltu 50% á móti 10 manna dómnefnd.

Keppnin í Boxen var glæsileg í alla staði og fá Danir stóran plús í kladdann fyrir stórskemmtilegt skemmtiatriði þar sem kynnarnir stikluðu í gegnum mörg dönsk Eurovision-lög og fengu svo óvæntan liðsauka frá Chanée & N’Evergreen sem slúttuðu atriðinu með glæsibrag. Áður en úrslitin voru tilkynnt steig Rasmussen á svið og flutti lögin Go Beyond og Higher Ground.

Lagið Love Is Forever mætti kalla krútt-popp par exellans og viðfangsefni textans er eins og klippt út úr Love Love Peace Peace atriðinu fræga. Ástin og friðurinn er allt sem við þurfum. Lag og texti eru eftir Lise Cabble, Emil Lei og Melanie Wehbe en Lise var líka einn af höfundum sigurlagsins Only Teardrops árið 2013 og Fra Mols til Skagen árið 1995. Auk þess samdi hún lag Nanos í Melodifestivalen í ár. Emil gæti flokkast sem Íslandsvinur en hann var annar meðhöfundur Gretu Salóme í UK You Decide í fyrra. Og Greta kemur einnig við sögu í Love Is Forever því hún samdi, útsetti og tók upp alla strengi í laginu. Það er ekki að spyrja að hæfileikunum hjá okkar konu! Höfundunum tókst í laginu að skipta milli fjögurra tungumála án þess að högg kæmi í textann og verður það að teljast ágætis afrek. Það er ekki oft sem heil málsgrein nær að fljóta eðlilega í gegn á þremur tungumálum eins og hér: Hvorfår skal vi slås, all we need is love, Liebe ist für alle da. Nú er bara að bíða og sjá hvernig fjöltungu-ástar-poppið hennar Leonoru leggst í Evrópu í Ísrael í maí.

Hægt er að horfa á Dansk Melodi Grand Prix hér.