Þýskaland: S!sters til Tel Aviv


Þýsku úrslitin fóru fram föstudagskvöldið 22. febrúar. Þjóðverjum gekk vel í fyrra, náðu 4. sæti með lagið You Let Me Walk Alone sem Michael Schulte flutti, en árin þar á undan voru mögur. Þeir hafa gefið út að þeir stefni á topp tíu í ár. Lögin voru ekki birt opinberlega fyrir keppni, eitthvað smávegis lak á netið rétt fyrir keppni en það var óverulegt. Lögin voru því frumflutt á úrslitakvöldinu sem jók á spennuna og minnti svolítið á gamla daga, árdaga Söngvakeppninnar. Úrslitin réðust með símakosningu almennings, 100 manna úrtaki Eurovision aðdáenda og 20 manna alþjóðlegrar dómnefndar. Allir hópar höfðu jafnt vægi. Meðal nefndarmanna var engillinn okkar, Einar Bárðarson. Var hann einnig í þessu hlutverki í fyrra.

Sjö lög kepptu til úrslita.

Gregor Hägele – Le Me Go

Gregor Hägele hóf kvöldið með hugljúfu lagi sem heitir Let Me Go. Gregor er ungur að árum og varð þekktur þegar hann tók þátt í The Voice of Germany árið 2017. Grafíkin og sviðið hjá Þjóðverjum kom vel út og kvöldið byrjaði ljúflega og vel.

Aly Ryan – Wear Your Love

Næst á svið var Aly Ryan. Hún sló í gegn með laginu No Parachute sem er meðal annars næst mest spilaða lagið á Sound Cloud. Nú er hún mætt í þýsku söngvakeppnina með lagið Wear Your Love. Atriðið sjálft var mjög vel útfært og grafíkin, lýsingin og aðalatriðið, lagði sjálft, minnir okkur á að það er komið árið 2019. Augna- og eyrnakonfekt.

Makeda Purple – The Day I Loved You Most

Makeda Purple er söngkona og lagahöfundur frá Bonn. Makeda hefur meðal annars verið að syngja lög Whitney Houston í sýningu og hefur röddina í það. Hún flutti ballöðuna The Day I Loved You Most, afar látlaust og fallegt atriði.

 BB Thomasz – Demons

BB Thomasz er þýsk söngkona, lagahöfundur og framleiðandi, spilar á píanó og gítar. Meðal lagahöfunda er hinn danski Tim Schou sem var söngvari hljómsveitarinnar A Friend in London sem keppti fyrir Danmörku árið 2011. Henni hefur verið líkt við Beyoncé  og Ariönu Grande. Lagið er líka í þeim anda. Atriðið byrjaði rólega en varð svo stórkostlegt.

Lilly Among Clouds – Surprise

Elisabeth Brüchner er söngkona hljómsveitarinnar Lilly Among Clouds, en hljómsveitin var stofnuð árið 2013 og sækir innblástur í ýmsar tónlistarstefnur. Lagið ber líka merki þess, en er svolítið í anda Kate Bush. En Elisabeth er stórkostleg söngkona, þetta er gæsahúðaratriði!

Linus Bruhn – Our City

Linus Bruhn er ungur og tiltölulega óþekktur ungur maður. Hann flutti popplagið Our City sem er í  boybands-anda. Hresst og skemmtilegt.

S!sters – Sister

Dúettinn S!sters skipa Carlotta Truman og Laurita og fluttu þær síðasta lagið, Sister, á áhrifamikinn hátt. Sviðsetningin var líka skemmtileg.

S!sters voru efstar eftir að atkvæði alþjóðlegu dómnefndarinnar voru gerð opinber. Aly Ryan var hins vegar efst meðal aðdáenda. S!sters voru hins vegar líka eftirlæti þeirra sem kusu í símakosningunni og fá því farmiða til Tel Aviv.

Eins og áður hefur komið fram var Einar Bárðarson einn af þeim 20 sem skipuðu alþjóðlegu dómnefndina. Einar gaf Makedu 12 stig, Linus Bruhn 10 stig, S!sters 8 stig, Gregor Hägele 7 stig, Lily Among Clouds 6 stig, BB Thomas 5 stig og Aly Ryan 4 stig.

Þjóðverjar eru eina þjóðin sem hefur tekið þátt í Eurovision frá upphafi ef frá er talið árið 1996 þegar lagið þeirra komst ekki áfram í sjálfa Eurovision keppnina úr forvalinu sem var haldið. Besti árangur þeirra eru tveir sigrar árin 1982 þegar Nicole vann með laginu Ein bißchen Frieden og árið 2010 þegar Lena sigraði með laginu Satellite.