Carousel veifar lettneska fánanum í ár.


Supernova, forkeppni Letta var siglt í höfn á laugardaginn og var það indie popp dúóið Carousel sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið “That Night”.

Fyrirkomulag keppninnar var með svipuðu sniði og víðast hvar annars staðar. Úrslitin réðust með helmingi símakosningar á móti dómnefnd og eftir æsispennandi keppni milli Carousel og júrósnúðsins Markus Rivas, sem er mörgum kunnur fyrir þátttöku sína í Supernova á hverju ári síðustu sex ár, var það að lokum hið lágstemmda og þjóðlagaskotna “That Night” sem vann hug og hjörtu lettnesku þjóðarinnar.

Það kom hins vegar fólki nokkuð í opna skjöldu að söngkonan Samanta Tina skyldi enda í 7. og næstseinasta sæti í Supernova, en fram að keppni hafði hún verið í miklu uppáhaldi hjá aðdáendum og var víða spáð sigri með lagið “Cutting the Wire”. Einnig endaði annað aðdáendauppáhald, hann Edgar Kreilis einnig nokkuð neðarlega eða í 6.sæti með lagið “Cherry Absinthe” en honum hafði einnig verið spáð þó nokkuð hærra. Það má því með sanni segja að Carousel dúettinn hafi komið, séð og hreinlega hrifsað til sín óvæntan sigur í Supernova.

Carousel er skipuð þeim Sabine Zuga og Marcis Vasilevskis og hefur verið starfandi síðan árið 2015. Ekki er annars mikið vitað um þetta sómapar (vitum ekki einu sinni hvort þau eru yfirhöfuð par) annað en að þau unnu sjálfan Markus Rivas. Hvort þeim tekst að gera betur en fyrirrennararnir í Triana Park og Laura Rizotto og koma Lettum alla leið í aðalkeppnina er spurning, en þangað til bjóðum við ykkur að njóta “That Night”.