D-Moll verður fulltrúi Svartfellinga í Ísrael.


Montevizija, forkeppni Svartfjallalands er lokið og var það sönghópurinn D-Moll sem bar sigur úr býtum, eftir æsispennandi síma og dómnefndakosningu og mun flytja ballöðuna “Heaven” á stóra sviðinu í Tel Aviv.

Svartfellingar blésu til sérdeilis flottrar keppni í ár og voru m.a með alþjóðlega dómnefnd sem samanstóð af fyrrum keppendum sem allir kannast við, en í dómnefndinni mátti finna Ruslönu (Úkraína), Andras Kallay-Saunders (Ungverjaland), Leu Sirk (Slóvenía), Iru Losco (Malta), Eldar Gasimov (Azerbaijan) og loks Jovan Radomir (Svíþjóð) en sá síðastnefndi hefur oftar en einu sinni kynnt stig Svía í aðalkeppninni.

D-Moll atti kappi við fjóra aðra flytjendur en meðal þeirra var t.a.m Andrea Demirovic sem keppti fyrir hönd landsins í Moskvu árið 2009 með lagið “Get out of my life”. Ef þið eigið í erfiðleikum með að muna, að þá var hún með einn stól og einn dansara á sviðinu og lagið var rosa líkt “Hot Stuff” með Donnu Summer. En nóg um það. Margir héldu með Andreu og útlit var á tímabili fyrir það að hún myndi endurtaka leikinn og vera fulltrúi Svartfjallalands. En þegar fyrri atkvæðagreiðslan hafði farið fram, var það ljóst að Andrea greyið átti ekki séns því hún endaði í 3.sæti og missti af súperfínalnum. Það voru D-Moll og Ivana Popovic Martinovic sem fóru í einvígið og að lokum stóðu D-Moll með pálmann í höndunum.

Saga Svartfjallalands í Eurovision hefur verið þyrnum stráð síðan þeir þreyttu frumraun sína sem sjálfstætt ríki árið 2007. Þeir hafa aðeins tvisvar komist upp úr forkeppninni, þrátt fyrir að hafa verið með mörg af epískustu framlögum seinni ára (eigum við að ræða eitthvað Euro Neuro, Igranka og Space?) en í bæði skiptin hefur það verið þvottekta Balkanballaða sem hefur komið þeim í aðalkeppnina. “Heaven” má vissulega flokka sem Balkanballöðu, en lagið er þó flutt á ensku og verður að öllum líkindum þannig í Tel Aviv.

D-Moll mun því feta í fótspor Vanja Radovanovic og vonandi toppa árangur hans og komast upp úr forkeppninni. Við óskum Svartfellingum alltaf alls hins besta enda eru Íslendingar og Svartfellingar svolítið í sama liði þegar kemur að Eurovision….eða við ættum að vera það. Stofna stuðningsgrúppu? “Heaven” var það heillin.