Ástralskt óperupopp til Tel Aviv!


Það var líf og fjör í Ástralíu á laugardaginn þegar Ástralar héldu sína fyrstu forkeppni fyrir Eurovision. Það var mikið lagt í keppnina enda mikill áhugi á Eurovision þar í landi. Það voru þau Myf Warhurst og Joel Creasey sem fóru á kostum sem kynnar og áttu marga góða spretti í gegnum keppnina. Það er morgunljóst að Ástralar munu ekki eiga í vandræðum með að finna kynna ef þeir vinna á næstunni! Hin frábæra Dami Im kom fram í hléi með píanóútgáfu af laginu sínu  Sound of Silence. Eftir fjölbreytta keppni var það hún Kate Miller-Heidke sem vann sigur með óperu popplagið sitt Zero Gravity. Flestir voru búnir að spá Electric Fields eða Sheppard sigri en þau komu á eftir Kate í öðru og þriðja sæti. Kate vann bæði dómarakosninguna og símakosninguna með yfirburðum og hennar sigur var því aldrei í hættu. Símakosningin var aðeins með öðru sniði en hérna heima en hægt var að kjósa frá og með dómararennslinu eða 24 tímum áður en beina útsending hófst. Óperupopp hefur komið annað slagið í Eurovision og kannski eru Ástralir að treysta á að Kate standi sig jafnvel og eistneska söngkonan Elina sem söng lagið La Forza í fyrra. Hún Elina var einmitt í svona roslegum kjól eins og Kate kom fram í á laugardaginn síðasta. Ástralar verða með Íslendingum í seinni hluta fyrri undankeppninnar í Tel Aviv. Það verður gaman að fylgjast með hvort Ástralir haldi hreinu blaði og komist áfram upp úr undanriðlinum eins og þeir hafa gert síðan þeir byrjuðu að taka þátt.

Hér eru úrslitin (dómaraatkvæði ásamt símaatkvæðum):

  1. Kate Miller-Heidke – “Zero Gravity” (135 stig)
  2. Electric Fields – “2000 and Whatever” (114 stig)
  3. Sheppard – “On My Way” (87 stig)
  4. Courtney Act – “Fight for Love” (52 stig)
  5. Alfie Arcuri – “To Myself” (49 stig)
  6. Aydan Calafiore – “Dust” (48 stig)
  7. Mark Vincent – “This Is Not the End” (38 stig)
  8. Tania Doko – “Piece of Me” (23 stig)
  9. Leea Nanos – “Set Me Free” (21 stig)
  10. Ella Hooper – “Data Dust” (18 stig)