Michael Rice fulltrúi Breta í Eurovision


Föstudagskvödið 8. febrúar völdu Bretar 61. framlag sitt í Eurovision. Forkeppnin Eurovision: You Decide fór fram í Dock10 myndverinu í Salford á Stór-Manchester svæðinu. Það var Michael Rice með útgáfu sína af laginu Bigger Than Us sem fór með sigur úr býtum og verður fulltrúi Breta í Eurovision í Tel Aviv.

Eins og Þóranna Hrönn fór yfir í pistli sínum á fases.is fyrir keppnina þá voru þrjú lög sem valið stóð um og hvert þeirra flutt í tveimur útgáfum. Fyrst voru háð einvígi milli flytjenda með sama lagið og dómarar kvöldsins Rylan Clark-Neal, Marvin Humes og Mollie King kusu svo hvaða útgáfa af laginu ætti að fara fyrir dóm þjóðarinnar. Eftir einvígin voru lögin sem komust áfram flutt aftur og þá var komið að almenningi að kjósa sitt uppáhald.

Kynnarnir Mel Giedroyc og Måns Zelmerlöw fóru á kostum í útsendingunni og skutu inn nokkrum Brexit bröndurum. Í kosningahléinu flutti Måns nokkur af frægustu bresku Eurovision lögunum og naut hjálpar Eurovision stjarnanna úr Bucks Fizz og Katrinu.

Einvígi 1: Lagið Sweet Lies

Kerrie-Anne á móti Anisa

Dómararnir völdu dansútgáfuna af laginu Sweet Lies sem flutt var af Kerrie-Anne. Einvígið má sjá í heild sinni í myndbandinu að ofan.

Eingvígi 2: Lagið Freaks

Jordan Clarke á móti MAID

Dómararnir völdu útgáfuna sem Jordan Clarke söng til að fara fyrir dóm þjóðarinnar. Einvígið í heild má sjá í myndbandinu að ofan.

Einvígi 3: Lagið Bigger than us

Holly Tandy á móti Michael Rice

Eftir blóðugt einvígi var Michael Rice dæmdur sigur. Í spilaranum að ofan má sjá einvígið í heild sinni.

Bretland í Eurovision

Bretar hafa fimm sinnum unnið Eurovision og deila þeir þriðja sætinu sem sigursælasta þjóðin í Eurovision ásamt Lúxemborg og Frakklandi á eftir Írum með sína sjö sigra og Svía með sex sigra. Bretar komast sjálfkrafa beint í úrslit þar sem þeir eru ein af stóru fimm þjóðunum í Eurovision og hafa Bretar aldrei keppt í undankeppnum síðan þær voru kynntar til sögunnar í núverandi mynd árið 2004 eins og Frakkar, Spánverjar, Þjóðverjar og Ítalir.

Lagið Bigger Than Us í flutningi Michael Rice gæti vel toppað árangur Breta í Eurovision síðustu ár, enda er lagið með góðan húkk sem virkar við fyrstu hlustun og byggingu sem hentar vel í Eurovision. Michael flutti lagið óaðfinnanlega og lagið hentar röddinni hans vel. Sjáum til hvað gerist í Tel Aviv.