Mahmood fer fyrir hönd Ítalíu til Tel Aviv.


Það var mikið um dýrðir í Sanremoborg í gærkvöldi þegar að Sanremo keppnin fór fram með pompi og prakt, en þetta er í 69nda skipti sem þessi fyrirmynd Eurovision er haldin.

Keppnin var hörð í ár, eins og áður og m.a mátti sjá félagana í Il Volo bítast um sigurinn, og héldu margir að þeir myndu baka keppinautana og fljúga beinustu leið til Tel Aviv. Einnig var söngvarinn Ultimo mikið eftirlæti aðdáenda og í aðdraganda keppninnar tók hann nettan “Francesco Gabbani” á þetta og var með áberandi mest áhorf á Youtube, ásamt því að ráða lögum og lofum á ítalska Spotify sem og Itunes,. Og svo var það drottningin Loredana sem átti hug og hjörtu margra. En Ítalir eru að sjálfsögðu jafn óútreiknanlegir og íslenska veðrið og það kom í hlut R n´B söngvarans Mahmood  og lagsins hans “Soldi” að hrifsa til sín efsta sætið þegar öll atkvæði höfðu verið talin, Ultimo var skilinn eftir í öðru sæti og enn á ný þurftu þeir Gianluca, Piero og Ignazio að láta sér þriðja sætið lynda. Elskurnar.

Mahmood átti þó ekki sigurinn alveg vísan, því hann tapaði símakosningunni með einungis 14% atkvæða á meðan Ultimo var með 46% og Il Volo 39%. En dómnefndaratkvæðin átti hann þó skuldlaust, því hann sigraði þar með yfirburðum og hlaut 63% atkvæða. Ultimo fylgdi á eftir með 26% en Il Volo voru einungis með 11%. Það voru því ansi mikil frávik á milli almennings og dómnefndar þegar kom að kosningu. En samantalin atkvæði símakosningar og dómnefndar skilaði þó Mahmood sigri á endanum og þar við situr.

Mahmood heitir fullu nafni Alessandro Mahmoud og er af egypsku bergi brotinn. Hann er fæddur í Mílanó fyrir 28 árum síðan og er ekki alveg ókunnugur Sanremo batteríinu, því hann varð í fjórða sæti í nýliðakeppni Sanremo árið 2016, en þar kepptu einnig þeir Francesco Gabbani og Ermal Meta. Mahmood gerði sér svo lítið fyrir og vann Sanremo Giovani í desember, sem er nokkurs konar forval fyrir aðalkeppnina.

Það hefur alltaf verið ljóst að sigurvegari Sanremo er ekki skyldugur til að vera fullltrúi Ítalíu í Eurovision, en Mahmood tilkynnti strax í upphafi blaðamannafundar eftir sigurinn, að hann væri meira en til í að fara til Tel Aviv og fljúga ítalska fánanum með stolti. Reyndar var uppi orðrómur í kringum keppnina að Mahmoud hefði verið fyrsta og eina val ítalska fararstjórans (Head of Delegation), sem er að margra mati, með puttana aðeins of mikið í vali á framlagi. Sá vildi víst ALLS EKKI að Il Volo færu aftur, og segir sagan að hann hafi verið búinn að sannfæra Ultimo að vera ekkert að vesenast í þessu Eurovision dæmi, skyldi hann vinna Sanremo. En þetta eru óstaðfestar sögusagnir og einungis gaman að velta fyrir sér hvað hefði gerst EF Il Volo hefði nú tekið fyrsta sætið.

En svona standa nú málin. Mahmood er að fara til Ísrael og spurning hvort hann toppar árangur Ermal Meta og Fabrizio Moro, en þeir félagar náðu 5.sætinu í Lissabon og urðu í 3.sæti í símakosningunni. Verður loksins ítalskur sigur? Fáum við að fara til Róm árið 2020? Kemur allt í ljós, en þangað til skulum við bara njóta lagsins “Soldi”.