Yfirlýsing frá FÁSES


Í dag sendi stjórn FÁSES þessa yfirlýsingu til RÚV og á aðra fjölmiðla til að fylgja eftir ályktun frá aðalfundi FÁSES frá 24. október 2018. Yfirlýsingin er svo hljóðandi:

Til stjórnar RÚV, útvarpsstjóra og framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar. Einnig sent á fjölmiðla og birt á fases.is

Um leið og FÁSES, félag áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þakkar RÚV fyrir frábæra Söngvakeppni og Eurovision umfjöllun síðustu ár vill félagið vekja athygli á að á aðalfundi FÁSES 24. október 2018 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

„Samkvæmt reglum Söngvakeppninnar 2019 skulu öll lög í forkeppninni flutt á íslensku. Á úrslitakvöldi keppninnar skulu öll lög, sem valin hafa verið áfram í úrslit, flutt á því tungumáli sem höfundur hyggst flytja á í Eurovision í Tel Aviv 2019, verði lag hans fyrir valinu. Aðalfundur FÁSES 2018 skorar á RÚV að breyta framangreindri tungumálareglu Söngvakeppninnar með það að markmiði að hver laga- og textahöfundur ákveði af sjálfsdáðum hvaða tungumál hentar innsendu lagi og/eða flytjenda, sbr. Söngvakeppnirnar 2009 og 2010.“

Mikið hefur hefur rætt um umrædda tungumálareglu í Eurovision samfélaginu hér á landi og hafa m.a. nokkrir lagahöfundar tjáð sig um þá erfiðaleika sem slík regla getur skapað eins og vandkvæði við að finna hentuga flytjendur og að kynna þurfi lagið tvisvar sinnum fyrir landsmönnum sé það fyrst flutt á íslensku og síðar á ensku. FÁSES vill einnig af þessu tilefni benda á að reglur í öðrum undankeppnum fyrir Eurovision eru ekki svo strangar og að tilslakanir í þessum efnum jafngildi ekki því að íslensku yrði útrýmt úr Söngvakeppninni. Sænska undankeppnin, Melodifestivalen, er gott dæmi um þetta.

Með von um jákvæðar undirtektir,
Flosi Jón Ófeigsson
formaður FÁSES
(ogae.iceland@gmail.com, s: 691-9240)“