Þetta er að byrja!


Hvað haldiði. Það er bara dottin á önnur júróvertíð eftir (að margra mati) langa bið. Forkeppnirnar eru á blússandi siglingu víðs vegar um Evrópu og á næstu 6-8 vikum munu framlög þjóðanna hrúgast inn hvert á eftir öðru.

En við erum nú þegar komin með tvö af þeim 43 lögum sem munu bítast um sigurinn í Tel Aviv í maí. Albanir riðu fyrstir á vaðið að vanda en söngvakepnin Festival i Këngës eða FiK fór fram í Tirana með pompi og prakt þann 22. desember síðastliðinn. Spánverjar völdu sitt lag í Eurovision Gala þætti Operation Triunfo þann 20. janúar.

Albanía

Þetta var hörkukeppni eins og venjulega í Albaníu og þegar óteljandi margar dómnefndir voru búnar að gefa sín stig og símakosningin hafði runnið sitt skeið, var það hin 35 ára gamla söngkona Jonida Malaqi sem stóð uppi sem öruggur sigurvegari. Hún tekur við keflinu af rokkgúmmelaðinu Eugent Bushpepa sem afrekaði það að ná besta árangri Albana í keppninni síðan að Rona Nishliu fór á límingunum í Baku hér um árið.

Jonida er engin nýgræðingur í bransanum, en fyrir utan að vera ein vinsælasta söngkona Albaníu til margra ára, er hún líka farsæl sjónvarpskona. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jonida stígur á svið í FiK. Hún var einungis 13 ára gömul þegar hún tók þátt í fyrsta skiptið árið 1995. Hún mætti svo aftur árið eftir og síðan tók hún líka þátt 1999, en það var skiptið sem endanlega kom ferli hennar af stað. Síðan þá hefur Jonida tekið þátt alls 7 sinnum og hafði loksins erindi sem erfiði núna. Hún er nokkurs konar Birgitta Haukdal þeirra Albana og ekkert lát hefur verið á vinsældum hennar á þessum tveimur áratugum sem liðnir eru frá frumraun hennar í FiK.

Lagið hennar heitir því hljómfagra og auðframberanlega nafni „Ktheju tokës“, sem útleggst sem „Endurheimtum jörðina“ á okkar ástkæra ylhýra og er, eins og titillinn gefur til kynna, mikill baráttusöngur fyrir björgun jarðkringlunnar. Enn sem komið er, hafa ekki verið gerðar stórvægilegar breytingar á laginu og það er enn þá á albönsku. Vonandi verður ekki mikið fiktað við lagið, en Albanir hafa verið svolítið iðnir við það í gegnum árin að taka framlögin sín og gjörbreyta þeim frá A til Ö. Svo er líka spurning hvort Jonida nær að toppa árangur Eugent og jafnvel Ronu. Kemur allt í ljós í maí en við óskum bara Jonidu alls hins besta í Eurovision ferðalaginu sínu.

Spánn

En það eru ekki bara Albanir sem búnir eru að velja sitt framlag. Spánverjar gerðu sér lítið fyrir og völdu sitt lag og flytjanda þann 20. janúar síðastliðinn í gegnum Eurovision Gala, hliðarkeppni frá hæfileikakeppninni Operación Triunfo. Sú keppni var líka notuð í fyrra þegar að sykursnúðarnir Alfred og Amaia unnu með laginu „Tu Cancion“ og reyndu sitt allra besta til að telja Evrópu og Ástralíu trú um að þau væru yfir sig ástfangin. Fréttaskot! Þau hættu saman kortéri eftir keppni og orðrómurinn segir að þau hafi hreinlega aldrei verið par þar sem þau hneigðust víst bæði í átt til karlmanna. Sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Spænska þjóðin tók algera U-beygju í ár og kaus hinn 23 ára gamla söngvara Miguel Nunez Pozo, eða Miki eins og hann kallar sig, og lauflétta latínópoppið hans „La Venda“. Lagið er myljandi stuð frá upphafi til enda og boðar ekkert annað en gleði, sól og sumar. Miki sjálfur er svo að segja glænýr í bransanum en leið hans til sigurs var vissulega ekki gefins. Hann var einn af 18 keppendum í Operación Triunfo, sem má kalla nokkurs konar æfingarbúðir til að finna næstu stjörnu Spánar. Hann komst alla leið í 6. sætið í þeirri keppni en datt svo út. En hins vegar var hann einn af 13 keppendum OT, sem valinn var til að flytja möguleg framlög Spánverja til Eurovision í Eurovision Gala og var „La Venda“ annað af tveimur lögum sem hann fékk til flutnings í keppninni. Hitt lagið var dúett með stúlku að nafni Natalia Lacunza, og þótti það líka sigurstranglegt. En það var djammslagarinn „La Venda“ sem fangaði hug og hjörtu spænsku þjóðarinnar og má því búast við suðrænni og seiðandi stemmningu í Tel Aviv. Við fögnum alltaf lögum sem má hrista á sér skankana við – sérstaklega ef þau eru á spænsku.