Félagsstarf haustsins

Áður en nýja Eurovision árið fer á fullt með tilheyrandi glásglápi á undankeppnir í öðrum löndum er ekki úr vegi að fara yfir félagsstarf FÁSES síðasta haustið.

Eftir að hafa lokið síðasta Eurovision ári með PED (post-Eurovision-depression) gleðistund í júní var síðasta smiðshöggið á Eurovision árið 2018 rekið með viðburðinum FÁSES tekur annan sjens! í lok ágúst sl. Árlega halda allir Eurovision aðdáendaklúbbarnir keppni þar sem lög sem komust ekki áfram í aðalkeppni Eurovision fá annan sjens og freista þess að vinna OGAE Second Chance titillinn. Sum Eurovision lög eiga nefnilega ekki skilið að lenda í Eurovision kirkjugarðinum! Ítalir unnu Second Chance að þessu sinni en FÁSES-tólfan fór til okkar ástkæru Söru Aalto í Finnlandi.

Aðalfundur FÁSES var haldinn 24. október 2018 og eins og vanalega var vel mætt. Hefðbundin aðalfundarstörf gengu smurt fyrir sig, skýrsla stjórnar kynnt og reikningar samþykktir. Vert er að vekja athygli á að alls stóð FÁSES fyrir 17 viðburðum á síðasta Eurovision ári – geri aðrir betur! Fundurinn samþykkti dágóðan slatta af breytingum á samþykktum félagsins en uppfærðar samþykktir má nálgast á fases.is. Ísak Pálmason var endurkjörinn gjaldkeri FÁSES og Sunna Mímisdóttir var endurkjörinn í embætti kynningar- og viðburðarstjórnanda. Anna Sigríður Hafliðadóttir sagði skilið við stjórn FÁSES að sinni en félagið fékk öflugan liðstyrk að norðan, Höllu Ingvarsdóttur, sem kjörinn var í embætti alþjóðafulltrúa. Gísli Ólason Kærnested og Eva Dögg Benediktsdóttir voru kjörin varamenn stjórnar en Eyrún Ellý Valsdóttir gaf ekki kost á sér. Stjórn FÁSES þakkar fráfarandi stjórnarmeðlimum kærlega samstarfið á liðnum árum. Á aðalfundinum var einnig samþykkt að senda RÚV ályktun þess efnis að hverfa ætti frá tungumálareglu Söngvakeppninnar og leyfa höfundum að hafa sjálfdæmi um á hvaða tungumáli lag þeirra er. Nánar má lesa um aðalfundinn í fundargerð fundarins.

Í byrjun nóvember sl. var haldið Eurovision-bingó á Ölver og mátti þar næla sér í ýmsa skemmtilega vinninga sem stjórnin hafði ferjað frá Eurovision í Lissabon; geisladiska, myndir, nælur og alls konar skemmtilegt pressustöff frá keppendum ársins.

Þann 6. desember var síðan hist á Veður-bar í gleðistund og Eurovision-kahoot (það eru að sjálfsögðu engin takmörk á því hversu marga leiki og spil við tengjum Eurovision!). Í aðdraganda jóla var að sjálfsögðu einnig viðeigandi að fara yfir hina einu sönnu Eurovision útgáfur (næstum) allra íslensku jólalaganna. Það leiddi meira segja til þess að FÁSES smellti í góðan spilunarlista yfir þá dásemd.

Milli jóla og nýárs stóð FÁSES í samstarfi við meðlimina Charles Gittins og Sólrúnu Ástu Steinsdóttur fyrir barsvari á Veður. Það var metmæting og náðu lið nokkuð góðum árangri í þessu níu lotna barsvari sem boðið var upp. Það var liðið “On again, off again” sem sigraði Barsvarið að þessu sinni en hafið engar áhyggjur það er nægur sjens á glæstum sigrum því FÁSES stendur fyrir öðru barsvari 18. janúar nk.

PED-gleðistund í júní 2018

PED-gleðistund í júní 2018

PED-gleðistund í júní 2018

Aðalfundur FÁSES 2018

Ný stjórn FÁSES 2018: Eva Dögg, Gísli, Flosi, Sunna, Ísak og Laufey. Á myndina vantar Höllu.

Aðalfundur FÁSES 2018

Ánægðir félagar með vinninga í Eurovision-bingói nóvember 2018