Áfangastaður Eurovision – Frakkar velja í kvöld


Klukkan 20 á íslenskum tíma (21:00 CET) hefjast úrslit Söngvakeppninnar Destination Eurovision í Frakklandi í beinni útsendingu á Facebook og á France 2. Það ríkir mikil eftirvænting í aðdáendasamfélagi Eurovision – enda hafa Frakkar sýnt mikinn metnað eftir að þeir hættu með innbyrðisval og hófu að halda keppnina Destination Eurovision.

Síðastliðin tvö laugardagskvöld voru haldin undanúrslit með níu lögum hvort kvöld. Úr hverri undankeppni komust 4 lög í úrslitin. Líkt og á undankvöldunum munu keppendurnir byrja á því að flytja brot úr gömlum Eurovision lögum til að sýna hvað í þeim býr áður en þau flytja lagið sem þau eru að keppa með.

1 Chimène Badi – Là-haut

Söngkonan Chimène Badi sem er af alsírskum ættum, skaust upp á stjörnuhimininn í Frakklandi árið 2003. Hún er ein Birgitta Haukdal síns heimalands sem tekur þátt í undankeppnum Eurovision í ár. Hún keppir með laginu Là-haut og mun hita upp með sigurlaginu Ne partez pas sans moi sem Celine Dion flutti árið 1988.

2 Silvàn Areg – Allez leur dire

Það hefur mikið gengið á hjá Silvàn Areg eftir að hann tók þátt í fyrri undanúrslitum. Lagið sem upprunalega hét Le Petit Nicolas komst í hámæli eftir að afkomendur René Goscinny og Jean-Jacques Sempé höfunda bókaflokksins um Litla Nikulás bentu á að þeir ættu höfundarréttinn að nafninu Le Petit Nicolas. Upptökunni af laginu frá fyrri undankeppninni hefur verið eytt af Youtube og er nú hvergi að finna á veraldarvefnum og er titill lagsins nú Allez Leur Dire. Atriðið í fyrri undankeppninni var snilldarlega vel uppsett og innihélt meðal annars hlaupabretti og teiknimyndafígúrur. Silvàn mun hita upp með laginu Le Dernier qui a parlé… sem Amina flutti fyrir Frakka árið 1991 og fékk jafnmörg stig og sigurvegarinn Carola frá Svíþjóð. Carolu var dæmdur sigurinn vegna þess að hún hlaut fleiri 10 stig eftir þáverandi reglum keppninnar. Nota bene þá hefði Frakkland unnið keppnina miðað við núverandi reglur.

3 Doutson – Sois un bon fils

Lagið Sois un bon fils er eftir sömu höfunda og Le Petit Nicolas. Doutson er 33 ára rappari sem hefur verið viðloðinn rappsenuna í Frakklandi frá því á tíunda áratugnum. Lagið fjallar um ráðleggingar og væntingar móður til sonar síns og tileinkar Doutson lagið öllum mæðrum og sérstaklega móður sinni. Doutson mun hita upp með aðdáendahittaranum J’ai cherché, sem tannlæknirinn Amir flutti eftirminnilega árið 2016 og lenti í sjötta sæti í Eurovision.

4 Aysat – Comme une grande

Aysat er 29 ára gömul og ættuð frá Senegal og Máritaníu. Lagið sem hún keppir með er Comme une grande og hefur textinn sterkan boðskap um stöðu kvenna í nútímasamfélagi. Aysat mun hita upp með laginu Fairytale eftir Alexander Rybak sem kom sá og sigraði Eurovision í Moskvu árið 2009.

5 Seemone – Tous les deux

Seemone er 21 árs gömul söngkona frá París. Samkvæmt veðbönkum er hún í öðru sæti til að vinna keppnina í kvöld á eftir Bilal. Lagið Tous les deux er hugljúf ballaða sem fjallar um samband milli föður og dóttur. Lagið er innblásið af sambandi Seemone við föður sinn og flutningur hennar á laginu mjög tilfinningaþrunginn – svo að hún táraðist þegar síðasti tónninn var sleginn. Seemone mun hita upp með laginu L’oiseau et l’enfant sem Marie Myriam sigraði Eurovision með árið 1977 sem var einmitt í síðasta skipti sem að Frakkland vann Eurovision.

6 Emmanuel Moire – La promesse

Það kom skipuleggjendum Destination Eurovision á óvart hvað Emmanuel var viljugur að taka þátt í keppninni, enda vel þekktur í Frakklandi eins og Chimène. Emmanuel samdi lagið og textann sjálfur út frá persónulegri reynslu sinni. Lagið fjallar um það hvað Emmanuel sér eftir því að hafa falið samkynhneigð sína áður en hann kom út úr skápnum af ótta við að aðdáendum hans myndi mislíka það að hann væri hommi. Í textanum lofar hann sjálfum sér að vera framvegis samkvæmur sjálfum sér og að lifa að fullu þegar hjarta sitt slái fyrir annan mann. Emmanuel kom út úr skápnum árið 2009 þrátt fyrir ráðleggingar margra vina sinna sem höfðu áhyggjur af neikvæðum áhrifum á feril hans. Í dag sér Emmanuel ekki eftir því að hafa komið út. Emmanuel mun hita upp með laginu Euphoria sem Loreen vann Eurovision með árið 2012.

7 Bilal Hassani – Roi

Samfélagsmiðlastjarnan Bilal sem er einungis 19 ára gamall tekur þátt í Destination Eurovision með laginu Roi. Bilal kynntist í haust þeim Émilie Satt og Jean-Karl Lucas sem tóku þátt í Eurovision fyrir Frakka árið 2018 sem dúettinn Madame Monsieur. Þau ákváðu að skrifa saman lagið Roi ásamt Rémi Tobbas og Steve Fraschini, en það átti upphaflega ekki að verða Eurovision lag. Upphitunarlag Bilals er Fuego sem við þekkjum best með Eleni Foureira frá Kýpur sem lenti í öðru sæti í Eurovision 2018.

8 The Divaz – La voix d’Aretha

Dívurnar Amalya, Sofia og Stacey kynntust eftir að hafa tekið þátt í uppfærslu á söngleiknum Pricilla: Queen of the Desert í París árið 2017. Saman mynda þær tríóið The Divaz sem taka þátt í Destination Eurovision með laginu La Voix d’Aretha sem er samið af sama teymi og samdi lagið Là-haut. Lagið er óður til Arethu Franklin sem söngkonurnar eru undir miklum áhrifum frá. Dívurnar munu hita upp með laginu Waterloo sem ABBA sigraði Eurovision með árið 1974.