Benjamin Ingrosso vinnur Melodifestivalen 2018


Svíar eru ein sigursælasta þjóðin í Eurovision, með sex sigra á ferilskránni,  ásamt því að vera fastagestir í topp fimm sætunum. Því var mikið um dýrðir í Friends Arena í Solna í Svíþjóð þegar Svíar völdu framlag sitt til Eurovision 2018, að viðstöddum 26 þúsund áhorfendum. Alls voru send inn 2.772 lög í Melodifestivalen í ár og voru 28 lög valin til að keppa í fimm undankeppnum í fimm mismunandi borgum. Fyrirkomulagið var þannig að úr fyrstu fjórum undankeppnunum komust tvö lög beint í úrslit en tvö lög fóru í fimmtu undankeppnina, Andra Chansen, sem er wildcard þáttur þeirra Svía. Fjögur lög komust síðan upp úr Andra Chansen um þar síðustu helgi. Um liðna helgi kepptu því 12 lög um sigur í Melodifestivalen, eða bara Melló eins og Svíar kalla keppnina.

Úrslitin voru með hefðbundnu fyrirkomulagi, vægi símakosningar er 50% á móti 50% vægi dómnefndar. Dómnefndin í Melodifestivalen var alþjóðleg eins og síðustu ár og voru 11 dómnefndir að störfum frá Póllandi, Albaníu, Íslandi, Ítalíu, Kýpur, Ástralíu, Georgíu, Bretlandi, Armeníu, Frakklandi og Portúgal. Í íslensku dómnefndinni sátu Felix Bergsson, Júlí Heiðar Halldórsson, Sigríður Beinteinsdóttir, Hera Ólafsdóttir og María Rut Reynisdóttir. Síðustu árin hafa mikil áhrif alþjóðlegu dómnefndarinnar verið gagnrýnd og breytti sænska ríkissjónvarpið, SVT, því fyrirkomulaginu. Í stað þess að hver dómnefnd gæfi sjö lögum stig gaf dómnefndin á laugardag tíu lögum stig svo dómnefndarstigum væri útdeilt á fleiri framlög.

Mikið hefur verið skrafað og skrifað um Melodifestivalen þetta árið. Áhorfið hefur minnkað og margir tala um að keppnin í ár hafi verið slök. Að mati pistlahöfundar vantaði þó ekkert upp á stemninguna og dramatíkina í Friends Arena síðasta laugardagskvöld. Boðið var upp á latínupopp í anda Despacito, schlager dívu, country ballöðu, heiðarlega ballöðu, rapp, led-dansashow og síðast en ekki síst Geirmund Valtýsson þeirra Svía í glimmerbúningi. Fyrir fram höfðu margir spáð Felix Sandman, John Lundvik og Benjamin Ingrosso góðu gengi í keppninni en engu að síður var mál manna að keppnin hafi verið mjög jöfn og átti það eftir að koma á daginn.

Eftir að alþjóðlega dómnefndin og símaatkvæði almennings höfðu verið talin saman, reyndust allir vera sammála um að Benjamin Ingrosso með lagið “Dance you off” ætti sigurinn skilinn.

Þetta er í annað skiptið sem hinn tvítugi Benjamin tekur þátt í Melodifestivalen en hann komst í úrslit í fyrra með laginu Good Lovin og lenti í 5. sæti. Benjamin komst beint inn í úrslitakeppnina í ár eftir fyrstu undankeppni Melló í Karlstad. Benjamin vann Lilla Melodifestivalen, nokkurs konar barna Eurovision þeirra Svía, árið 2006 og sigraði dansraunveruleikaþáttinn Let’s Dance árið 2014. Benjamin er sonur söng- og leikkonunnar Pernillu Wahlgren sem hefur margoft tekið þátt í Melodifestivalen en er eflaust þekktust sem flytjandi Piccadilly Circus sem lenti í 4. sæti 1985 (glöggir munu taka eftir því að faðir Benjamins, Emilio Ingrosso, dansar með Pernillu í númerinu). Þess má geta að Benjamin tekur þátt í sjónvarpsþáttum mömmu sinnar sem heita Wahlgrens Värld. “Dance you off” er eftir MAG, Louis Schoorl, K Nita  og Benjamin sjálfan og er hann einn á sviðinu, en nýtur dyggrar aðstoðar LED ljósabekks sem skiptir litum.

Í öðru sæti í Melodifestivalen var Felix Sandman sem var áður í strákabandinu FO&O sem lenti í 11. sæti í Melodifestivalen í fyrra með lagið Gotta Thing About You.

Í þriðja sætinu var John Ludvik með lagið “My Turn”. John var að taka þátt í fyrsta sinn sem flytjandi en hann er þekktur lagahöfundur og hefur meðal annars samið lög fyrir Melodifestivalen-stjörnur eins og Sanna Nielsen og Anton Ewald.

Útsending Melodifestivalen gekk ekki áfallalaust fyrir sig því inneyra eins keppandans, Renaidu, hætti að virka. Í miðju lagi kallaði hún að hún heyrði ekkert og varð það til þess að hún fékk að flytja lagið sitt “All the Feels” öðru sinni. SVT hefur tilkynnt að sænska þjóðin hafi skilað inn 14 milljónum símaatkvæðum þetta kvöld og er það nýtt met fyrir Melodifestivalen og sérstaklega áhugavert í ljósi þess að í Svíþjóð búa rúmlega 10 milljónir manna. Nú verðum við bara að bíða þar til 10. maí næstkomandi eftir seinni undankeppni Eurovision til að sjá hvernig Benjamin Ingrosso og “Dance you off” reiðir af á stóra sviðinu.