Litháen: Ieva Zasimauskaité tryggði sér farmiðann til Lissabon


Ef einhver man ennþá eftir litháísku útgáfunni af Míu litlu, sem ráfaði stefnulaust um sviðið í Kænugarði í fyrra og gargaði: „Yeah, yeah!” móðursýkislega á sirka fimm sekúndna fresti, þá legg ég til að þið gleymið henni eins og skot! Það er kominn nýr fógeti í bæinn frá Litháen og hún heitir Ieva Zasimauskaité.

Litháar eru ekki beint sú þjóð sem kennd er við gengdarlausa velgengni í keppninni. Þeir tóku fyrst þátt árið 1994 og lentu í seinasta sæti með ekkert stig og hafa síðan oftar en ekki verið hægra megin á stigatöflunni ef þeir komust yfirhöfuð í aðalkeppnina. Það var ekki fyrr en árið 2006 sem þeir létu eitthvað að sér kveða. LT United hópurinn mætti með Eurovision brandarann „We are the winners” og komust alla leið í 6. sætið, mörgum að óvörum og sumum til ama. En Litháar eru ósköp viðkunnaleg þjóð og eiga allt gott skilið. Allavega fannst okkur Íslendingum það í byrjun 10. áratugarins því við vorum fyrsta þjóðin í heiminum sem viðurkenndum sjálfstæði Litháen. Sögustund lokið.

Á sunnudagskvöldið ráku þeir loksins endahnútinn á hina ótrúlega langdregnu Eurovizijos Atranka keppni og völdu söngkonuna Ievu Zasimauskaité til að fara til Lissabon með ljúfu ballöðuna sína „When we´re old”. Keppnin sjálf var að vísu álíka langdreginn og allur prósessinn á undan og við sem létum okkur hafa það að sitja yfir henni vorum alveg við það að gefast upp á stundum. En dæmið kláraðist þó að lokum og Ieva vann með yfirburðum og burstaði bæði dómnefndarkosninguna og símakosninguna. Ólíkt öðrum þjóðum í Evrópu voru Litháar ekkert að elta tískuna með því að vera með alþjóðlega dómnefnd. Það var hinsvegar innanhúsdómnefnd, skipuð sjö listamönnum sem allir sögðu eitthvað í lok hvers flutnings. Og með „eitthvað“ erum við að meina „mikið“. Atkvæðin skiptust hinsvegar í 50% dómnefnd og 50% símaatkvæði og þegar uppi var staðið var það Ieva sem átti keppnina með húð og hári.

En það var nú ekki allt alslæmt við blessaða keppnina. Við Íslendingar áttum okkar fulltrúa þetta kvöldið. Sveinn Rúnar Sigurðsson var einn af mönnunum á bakvið lagið „1 2 3“ sem flutt var af hinni ofurhressu Paulu. Gríðarlega flott númer og Sveini til sóma. Og litháíska sjónvarpið fékk svo Ara okkar Ólafsson til að opna kvöldið með glæsilegum flutningi á „Our Choice“ og seinna um kvöldið kom finnska skrímsladrottningin Saara Aalto og tryllti lýðinn með laginu „Monsters“. Svo var líka bónorð í beinni, Ieva knúsaði manninn sinn og kyssti um miðbik keppninnar og bara allt í lukkunar velstandi í Vilnius á sunnudagskvöldið. Því ber að sjálfsögðu að fagna.

 

Ieva Zasimauskaité er 24 ára gömul söngkona og sjónvarpskona og var uppgötvuð árið 2012 í gegnum hæfileikakeppnina „Lietuvos Balsas“. Hennar sérgreinar eru aðallega soul og popp og er hún ansi vinsæl meðal landa sinna. Lagið „When we’re old“ fjallar um þessa ódauðlegu ást sem kviknað getur milli tveggja einstaklinga sem þrá ekkert meira en að fá að vera gömul/gamlir/gamlar saman og í lokaflutningnum stóð Ieva andspænis eiginmanni sínum og söng beint til hans. Maður fékk smá kusk í augun þar, það verður bara að viðurkennast. Eftir herfilegt gengi Fusedmarc í fyrra er næsta víst að Ievu getur hreinlega ekki gengið verr. Henni á bara sennilega eftir að ganga miklu betur.