Alexander Rybak með endurkomu fyrir Noreg í ár


Frændur okkur Norðmenn völdu sér sitt framlag til Eurovision síðastliðna helgi með glæsilegri forkeppni, sem haldin var í Oslo Spektrum. Í ár var það enginn annar en fyrrum Eurovision-sigurvegarinn Alexander Rybak, sem vann með lag sitt „That’s How You Write a Song“ og mun því fara fyrir hönd Noregs til Lissabon í maí og freista þess að ná öðrum sigri sínum á stóra sviðinu, eitthvað sem engum hefur tekist nema ástralska Íranum Johnny Logan.

Fyrir þá sem ekki vita, þá vann Alexander Rybak Eurovision-keppnina árið 2009, með lag sitt „Fairytale“ og mætti kalla hann Noregs-grýlu okkar Íslendinga en það ár lenti hún Jóhanna Guðrún í öðru sæti, fyrir hönd okkar Íslendinga, sælla minninga. Að vísu var sigur Alexanders nokkuð öruggur, því Noregur setti stigamet þetta árið þegar Alexander hlaut 387 og Jóhanna Guðrún „einungis“ 218 stig. Stigamet þetta stendur enn þann dag í dag, ef litið er á gamla stigakerfið. Kerfinu var nefnilega breytt árið 2016, sem gerði það að verkum að heildarstigafjöldi er mun meiri en áður var.

Keppni norska ríkisútvarpsins (NRK) ber heitið Norsk Melodi Grand Prix og í ár, líkt og þau síðustu, samanstóð hún af einu úrslitakvöldi með 10 lögum, sem kepptu sín á milli um heiðurinn að fá að fara fyrir hönd Noregs í Eurovision. Keppnin var í þremur liðum en í fyrstu umferð voru öll 10 lögin flutt. Fjögur efstu voru valin með blöndu af 50% dómaraatkvæðum og 50% símaatkvæðum og komust í svokölluð „silfurúrslit“. Í annarri umferð var kosið á ný á milli þeirra fjögurra efstu. 100% símakosning  ákvarðaði tvö efstu lögin, sem fóru áfram í „gullúrslitin“. Í þriðju umferðinni voru svo þau tvö efstu flutt aftur og enn ein 100% símakosningin ákvarðaði síðan framlag Norðmanna í Eurovision árið 2018. Og eins og áður sagði var það Alexander Rybak sem stóð uppi sem sigurvegari.

1.sæti – Alexander Rybak – „That’s How You Write a Song“

2.sæti – Rebecca – „Who We Are“

3. sæti – Stella & Alexandra – „You Got Me“

4. sæti – Aleksander Walmann – „Talk to the Hand“

„Silfurúrslit“

Flytjandi Lag Símaatkvæði Sæti
1 Stella & Alexandra „You Got Me“ 29,784 3
2 Aleksander Walmann „Talk to the Hand“ 7,927 4
3 Rebecca „Who We Are“ 46,260 2
4 Alexander Rybak „That’s How You Write a Song“ 133,164 1

„Gullúrslit“

Flytjandi Lag Símakosning
1 Rebecca „Who We Are“ 123,504
2 Alexander Rybak „That’s How You Write a Song“ 306,393

 

Eins og sjá má á þessum tölum var Alexander Rybak með þó nokkra yfirburði og var sigur hans nánast alltaf vís. Norðmenn treysta því á að reynsla hins fiðluspilandi Alexanders eigi eftir að koma honum að góðum notum í Lissabon í maí. Nú er bara að bíða og sjá hvort Alexander eigi eftir að feta í sín eigin fótspor og sigra allt heila klabbið líkt og hann gerði fyrir níu árum síðan.

Reyndar er gaman að segja frá því að Norðmenn virðast hafa verið hrifnastir af þeim keppendum sem nú þegar búa yfir Eurovision-reynslu, þar sem öll atriðin, sem lentu í fjórum efstu sætunum voru samin og/eða flutt af aðilum sem hafa áður farið fyrir hönd Noregs í keppnina. Fyrir utan Alexander Rybak sjálfan, þá flutti Aleksander Walmann framlag Norðmanna árið 2017, Stella flutti framlag Norðmanna árið 2011 og höfundur lagsins sem Rebecca flutti, Kjetil Mørland, flutti og samdi framlag Norðmanna árið 2015.

Annað sem gaman er að benda á er að þrír aðilar í silfurúrslitunum bera nánast sama nafn – Alexander, Aleksander og Alexandra. Það var þó ekki trygging fyrir því að komast í úrslitin að bera þetta nafn eða afbrigði af því nafni, því einn var skilinn eftir í úrslitunum. Það var hinn Chile-ættaði Alejandro, en nafnið Alejandro er náttúrulega ekkert annað en spænskumælandi útgáfan af nafninu Alexander.

Öll lögin í úrslitunum

  1. Stella & Alexandra – „You Got Me“
  2. Aleksander Walmann – „Talk to the Hand“
  3. Ida Maria – „Scandilove“
  4. Nicoline – „Light Me Up“
  5. Tom Hugo – „I Like I Like I Like“
  6. Charla K – „Stop the Music“
  7. Alejandro Fuentes – „Tengo Otra“
  8. Vidar Villa – „Moren din“
  9. Rebecca – „Who We Are“
  10. Alexander Rybak – „That’s How You Write a Song“

 

Góð forkeppni í Eurovision er svo ekkert ef það eru ekki góð skemmtiatriði til að dreifa huga áhorfenda og gera biðina eftir úrslitum aðeins bærilegri. Eins og hefðinni sæmir var framlag Noregs frá árinu áður flutt og að þessu sinni var það lagið „Grab the Moment“ með JOWST. Lagið er þó sungið af vini okkar Aleksander Walmann sem hafði fengið að vita fimm mínútum áður en hann átti að fara á svið með sigurlag ársins áður að hann fengi ekki að flytja framlag Norðmanna tvö ár í röð. Talandi um stáltaugar. Honum til aðstoðar var trommusveit og munkakuflaklæddur kór, ásamt því að glitta mátti í Didrik Solli-Tangen á kantinum en hann flutti einmitt framlag Norðmanna á heimavelli árið 2010.

Gengi Norðmanna í Eurovision hefur verið með flöktandi hætti síðan þeir hófu þátttöku árið 1960. Af þeim 56 skiptum sem þeir hafa tekið þátt hafa þeir sigrað þrisvar sinnum – Bobbysocks með „La Det Svinge“ árið 1985, Secret Garden með „Nocturne“ árið 1995 og svo Alexander Rybak sjálfur með „Fairytale“ árið 2009. Og eins og áður hafði verið nefnt þá setti Alexander einnig stigamet árið 2009 og á ennþá það met miða við gamla kerfið. Norðmenn njóta þó einnig þess vafasama heiðurs að eiga metið yfir flest skipti í neðsta sæti í Eurovision – heil 11 skipti – og deila metinu yfir flestar „núllur“ með Austurríkismönnum en báðar þjóðir hafa endað með núll stig fjórum sinnum.