Nýjar stjörnur í bland við epíska góðkunningja í Norsk Melodi Grand Prix 2018


Norðmenn eru mögulega ein öfgafyllsta þjóðin í Eurovisin þegar kemur að flöktandi gengi. Þeir eiga bæði met í að hafa lent oftast í síðasta sæti í keppninni (11 sinnum) og metið yfir flest skipti sem þjóð hefur fengið 0 stig í keppninni (4 sinnum, sem þeir reyndar deila með Austurríkismönnum). En á móti eiga Norðmenn ennþá stigametið fyrir breytingarnar á stigakerfinu 2016, en það eru hvorki meira né minna en 387 stig sem Alexander Rybak halaði inn árið 2009 og “rétt” náði að sigra Jóhönnu Guðrúnu okkar.

Þrátt fyrir að gengi Norðmanna hafi verið upp og ofan í gegnum tíðina, þá eru Norðmenn ennþá miklir áhugamenn um Eurovision og er forkeppni þeirra þar í landi iðulega viðamikil og glæsileg. Forkeppnin nefnist Melodi Grand Prix, rétt eins og hjá frændum okkar Dönum, en til að forðast allan misskilning þá hafa Norsararnir nú skellt “Norsk” fyrir framan. Svona svo allir séu nú með á hreinu hvora þjóðina um sé að ræða.

Síðastliðin ár hefur það verið hefðin hjá NRK (norska ríkissjónvarpið) að halda eitt aðalkvöld þar sem 10 lög keppast um að fá að fara fyrir hönd Noregs í Eurovision. Í ár er engin undantekning. Úrslitakvöldið verður haldið laugardagskvöldið 10. mars í Oslo Spektrum höllinni, en þar hefur keppnin verið haldin síðustu ár.

Í ár bjóða Norðmenn okkur upp á ágætis blöndu af nýju blóði og góðkunningjum Eurovision. Við fáum að sjá hvorki meira né minna en fjóra keppendur sem hafa áður tekið þátt á stóra sviðinu fyrir hönd Noregs, þar á meðal einn fyrrum sigurvegara!

Þátttakendur í Norsk Melodi Grand Prix 2018 

Stellu Mwangi ættu flestir að kannast við, en hún tók þátt fyrir hönd Norðmanna árið 2011 með lagið “Haba Haba“. Þrátt fyrir að hafa verið aðdáenda-augasteinn (fan favourite) það árið þá tókst Stellu ekki að koma Noregi í aðalkeppnina og varð að sitja eftir í undankeppninni með sárt ennið. Hún er hins vegar mætt fílefld aftur á svæðið og í þetta sinn ekki ein, heldur með Alexöndru Rotan sér við hlið. Alexandra þessi er 22 ára snót sem komst í kynni við Stellu í gegnum NRK, við leit að hinum fullkomna dúett-félaga fyrir Stellu í laginu “You Got Me”.

Aleksander Walmann heiðraði okkur Eurovision-aðdáendur með nærveru sinni í fyrra þegar hann flutti framlag Norðmanna, “Grab The Moment”, í Kænugarði. Þar var próduserinn JOWST reyndar skráður sem flytjandi lagsins en Aleksander sá um sönginn. Í ár fær Aleksander að láta ljós sitt, og nafn, skína alveg einn og flytur lagið “Talk to the Hand”. JOWST er þó ekki alveg búinn að yfirgefa vin sinn Aleksander en þeir félagar semja lagið ásamt tveimur öðrum.

Ida Maria er kannski nýliði þegar kemur að því að flytja lag í Norsk Melodi Grand Prix, en hún er langt frá því að vera nýliði í norsku tónlistarlífi. Ida vakti fyrst athygli í heimalandinu árið 2007 eftir að hafa unnið tvær norskar tónlistarkeppnir sem ætlaðar voru óþekktum tónlistarmönnum. Síðan þá hefur Ida gefið út þrjár hljómplötur. Tónlist Idu er blanda af pönk-rokki og indí-rokki og hefur textagerð hennar vakið mikla athygli. Ida er þó ekki einungis þekkt í heimalandi sínu en hún hefur farið í tónleikaferðalög í Skandinavíu, Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu. Hennar þekktasta lag á alþjóðavísu er eflaust smellurinn “I Like You So Much Better When You’re Naked” frá árinu 2008. Þótt þetta sé í fyrsta skiptið sem Ida mætir sjálf á sviðið í Norsk MGP þá samdi hún lagið “Mamas Boy” sem var flutt af Ellu í Norsk MGP 2017. En í ár mætir hún sjálf á sviðið með lag sitt “Scandilove”. Takið sérstaklega eftir textanum, hann er dásamlegur.

Nicoline vakti fyrst athygli í Noregi með þátttöku sinni í norsku útgáfunni af The Voice árið 2015. Hún er ekki alls ókunn Eurovision þar sem hún var í bakraddateymi Norðmanna árið 2013 og árið 2016, í síðustu tvö skipti sem keppnin hefur verið haldin í Svíþjóð. En núna langar Nicoline í sólina og flytur lagið “Light Me Up” í þeirri von um að fá að komast til Portúgal.

Tom Hugo er söngvari og lagasmiður sem hefur gefið út nokkur þekkt lög í heimalandinu. Hann fyrsta lag kom út árið 2011 og fyrsta platan árið 2012. Ásamt því hefur Tom samið lög fyrir þekkta listamenn í Þýskalandi, Japan og Kína. Tom hefur áður komið fram í Norsk MGP en hann tók þátt árið 2013 með lagið “Det er du“. Í ár bíður hann okkur upp á popp-fönkið “I Like I Like I Like”. 

Charla K kom fyrst fram á sjónarsviðið í norsku útgáfunni af X Factor árið 2009 sem partur af hljómsveitinni Shackles. Árið 2013 kom hún fyrst fram í Norsk MGP sem partur af sömu hljómsveit, sem var þó reyndar búin að breytast í dúett. Charla K býr í Stokkhólmi og starfar þar sem tónlistarmaður í samstarfi við sænska lagahöfunda og pródúsera. Charla hefur meðal annars unnið með fyrrum Roxette meðlimnum Per Gessle sem er einmitt einn af lagahöfundunum ásamt Chörlu sjálfri í framlagi hennar í ár, “Stop the Music”. 

Alejandro Fuentes bíður upp á latínó-lag Norðmanna í ár, en lög sem eiga rætur sínar að rekja til tónlistarhefðar rómönsku Ameríku hafa verið áberandi í forkeppnum Eurovision víða um Evrópu í ár. Spurning hvort þar sé að þakka vinsældum Despacito árið 2017. Alejandro á ættir sínar að rekja til Chile en hann vakti fyrst athygli í Noregi í norsku útgáfunni af Idol árið 2005. Eins og titill lagsins, “Tengo Otra”, gefur til kynna er lagið sungið á spænsku og er samið af Alejandro sjálfum ásamt tveimur öðrum.

Vidar Villa öðlaðist landsfrægð í heimalandinu Noregi árið 2017 með sumarsmellinum “One Night Stand” sem vakti mikla athygli og gerði Vidar að einum mest spilaða norska tónlistarmanninum á streymisveitunni Spotify. Vidar er hvað þekktastur fyrir áhugaverða textasmíð í lögum sínum þar sem hann syngur að mestu leyti um kynlíf og fyllerí. Og er framlag hans til Norsk MGP í ár, “Moren Din“, þar engin undantekning. Þeir sem kunna eilítið fyrir sér í norsku ættu að kveikja strax á perunni, fyrir aðra mælum við eindregið með Google Translate.

Rebecca er 19 ára yngismær og er nýgræðingur í Norsk MGP. Hún er ný útskrifuð út menntaskóla með tónlist sem aðalfag og ætlar sér að halda áfram að læra tónlist í Englandi. Lagið “Who We Are” er samið af engum öðrum en Kjetil Mørland sem samdi og flutti framlag Norðmanna, “Monster Like Me“,  í Eurovision árið 2015.

Ef það er einhvern tímann hægt að tala um góðkunningja Eurovision þá er Alexander Rybak einn slíkur. Eins og allir ættu að vita rústaði hann keppninni árið 2009 þegar hann setti stigamet og vann hana Jóhönnu Guðrúnu okkar. Og nú er hann mættur aftur með sína eigin lagasmíð “That’s How You Write A Song”, þar sem fiðlan er að sjálfssögðu í stóru hlutverki.

 

Þá er það spurningin, verður það góðkunningi sem fær að fara aftur í Eurovision eða verður það nýgræðingur í ár. Ef ykkur langar að fylgjast með, sem við mælum náttúrulega með, þá byrjar keppnin klukkan 19:55 á norskum tíma (18:55 á íslenskum tíma) og þið getið horft á hana í beinni á NRK1 í víðtækjum ykkar fyrir þá sem búa svo vel að ná þeirri stöð. Fyrir hina er hægt að horfa á hana beint í gegnum heimasíðu NRK https://tv.nrk.no/direkte/nrk1