Danmörk: Víkingurinn Rasmussen fyrir hönd Danmörku í Eurovision.


Eftir æsispennandi keppni í Álaborg seinasta laugardagskvöld, var það Rasmussen með lagið “Higher Ground” sem stóð uppi sem öruggur sigurvegari og verður því fulltrúi þjóðarinnar í Lissabon í maí.

Keppendur ársins í Dansk Melodi Grand Prix voru jafn fjölbreyttir og þeir voru margir og var þetta nokkuð góð blanda af vönu fólki og nýliðum. Til að mynda mátti finna fyrrum rave drottninguna Whigfield, sem margir muna sjálfsagt eftir, en hún átti lög í efstu sætum víða um heim hér áður fyrr, og kannast margir Íslendingar við lagið “Saturday Night” sem var og er enn feykivinsælt. En hún sagði þó skilið við listamannanafnið Whigfield árið 2012 og kom fram undir eigin nafni, Sannie Carlsen með lagið “Boys on Girls”. Sannie hafði lofað sjóðheitri sýningu og stóð svo sannarlega við það, þótt ekki hafi hún átt erindi sem erfiði í ár.

Einnig kom fram Ditte Marie, sem hefur nokkrar DMGP keppnir á bakinu, og varð m.a í þriðja sæti árið 2011, en það árið var það hljómsveitin A Friend in London sem keppti fyrir hönd Danmerkur í Dusseldorf og uppskar 12 stig frá Íslandi.

En það voru Rasmussen með kraftmikla víkingaróðinn “Higher Ground”, hin 17 ára gamla Anna Ritsmar með lagið “Starlight” og Svíinn Albin Fredy með vegarokkið “Music for the Road” sem urðu þrjú stigahæstu lögin eftir blandaða kosningu dómnefndar og almennings, og fóru áfram í ofurúrslitin, þar sem hrein símakosning réði úrslitum.

Rasmussen burstaði svo sannarlega keppinauta sína, því hann var með slétt 50% atkvæða eftir seinni kosninguna, en Anna og Albin skiptu með sér hinum helmingnum. Það er því ljóst að Danir voru handvissir um hvaða lag þeir vildu til Portúgal og munu þeir eflaust standa þétt við bakið á sínum manni í maí. Vonandi verður þetta ferð til fjár, því Dönum hefur ekki gengið neitt tiltakanlega vel seinustu árin, frekar en okkur Íslendingum. Þeir náðu 8. sætinu árið 2014 á heimavelli, þegar að Basim mætti í B&W Hallern með “A Cliché Lovesong” en síðan hefur hvorki gengið né rekið. Þeir komust að vísu í aðalkeppnina í fyrra, þegar dansk/ástralska söngkonan Anja Nissen söng sig þangað með herkjum, en þegar þangað var komið, gerðist nákvæmlega ekki neitt og Anja endaði í 20. sæti með 77 stig. Gerumst svo köld að segja að Rasmussen muni án efa toppa þann árangur.

Rasmussen heitir fullu nafni Jonas Flodager Rasmussen og er 32 ára gamall tónlistarmaður og fjölskyldufaðir, ættaður frá Viborg. Þetta er í fyrsta skipti sem að hann keppir í DMGP, og miðað við fyrrum afrek hans, sem t.a.m eru hlutverk í ýmsum leikhúsuppfærslum á borð við “Rent!”, “West Side Story” og “Les Miserables”,var aðeins tímaspursmál uns einhver lagahöfundur ræki augu og eyru í þennan fjölhæfa listamann. Það gerðu sænsku lagahöfundarnir (já, Svíarnir með puttana allstaðar) Niclas Arn og Karl Eurén, og voru ekki seinir á sér að bjóða honum “Higher Ground” sem má lýsa sem einhverskonar óði víkingsins til örlaga sinna, sem voru að berjast til síðasta blóðdropa. Lagið er kraftmikið og Rasmussen hefur mikla sviðsnálægð, sem gæti skilað Dönum alla leið í úrslitin og uppskorið þónokkuð mörg stig í kassann.

Danska Ríkisútvarpið hafði þá nýbreytni á í ár, að dómnefndin var nánast eingöngu skipuð Eurovision aðdáendum, sem óneitanlega komu með ferska sýn og nýjan vinkil. En í dómnefndinni mátti þó líka finna þaulvant fólk og þeir sem kunnugir eru keppnum fyrri ára, þekktu strax ókrýnda 80´s Eurovision drottningu Dana, hana Kirsten Siggaard, en hún hefur þrisvar sinnum keppt fyrir hönd landsins sem annar helmingur dúósins Hot Eyes, ásamt Sören Bundgaard og átti góðu gengi að fagna, því tvisvar voru þau í topp fimm, seinast árið 1988, þegar Kirsten söng þau í þriðja sætið,  kasólétt á sviðinu í Dublin, sælla minninga.