DMGP: Danskt loforð um sjóðheita sýningu.

Danir eru alveg jafn spenntir fyrir Eurovision og við Íslendingar, og þeir verða fyrstir Norðurlandaþjóðanna til að velja sér framlag, en það munu þeir gera þann 10. febrúar næstkomandi í Álaborg og vonast til að í forkeppninni leynist fjórða sigurlag þjóðarinnar, en þeir hafa orðið hlutskarpastir þrisvar sinnum áður. Árið 1963 voru það hjónin Grethe og Jörgen sem komu, sáu og sigruðu, árið 2000 voru það krúttsprengjurnar Olsen bræður sem rústuðu keppninni sælla minninga og nú seinast var það hin aðalborna Emelie De Forest sem að tiplaði berfætt beint í fyrsta sætið árið 2013.

En líkt og við, hafa blessaðir Danirnir ekki verið að skora mjög hátt í keppninni undanfarin ár, og hefur hreinlega gengið ömurlega síðan 2014, þegar dillibossinn Basim skúbídúaði sig í 8. sæti á heimavelli. Danmörk komst að vísu í aðalkeppnina í fyrra, en dansk/ástralska söngkonan Anja Nissen rétt svo marði það að komast í gegn, með einungis þremur stigum meira en hin serbneska Tijana Bogicevic. En þegar í úrslitin var komið, gerðist nákvæmlega ekki neitt, og Anja endaði í 20.sæti af 26 með 77 stig. Vilja nú margir aðdáendur og spekúlantar meina að hún hafi bara aldrei átt séns, enda var henni haganlega komið fyrir á milli Ítalíu og Portúgal í flytjendaröðinni, og virtist vera einhverskonar afþreyingarefni fyrir fólk á meðan það var að jafna sig eftir Francesco Gabbani og undirbúa sig fyrir Salvador Sobral. Semsagt, hún var bara uppfylling. Hvort sem það er rétt eða ekki, að þá voru Danir skiljanlega ekki par sáttir og í ár er mikill hugur í þeim og vilji til að rétta sinn hlut.

DMGP eða Dansk Melodi Grand Prix fer, eins og áður sagði, fram í Álaborg á laugardaginn, og verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Lögunum var haldið leyndum fram á alla seinustu stundu, þótt búið væri að kynna keppendurnar, og það var ekki fyrren 5. febrúar síðastliðin, sem lögin heyrðust í heild sinni, svo að það hefur ekki verið langur tími til að mynda sér skoðun. Á youtube er að finna spilunarlista fyrir öll lögin.

Þegar keppendur hafa lokið flutningi sínum, tekur við kosning sem byggist upp á 50% símaatkvæða og 50% dómnefndaratkvæða, og þegar þeirri kosningu er lokið, fara þrjú efstu lögin áfram í súperfínal, þar sem áhorfendur munu kjósa aftur á milli þeirra. Allt eftir bókinni og fátt sem kemur á óvart.

Kynnar keppninnar, þau Annette Heick og Johannes Nymark tengjast bæði Eurovision á einn eða annan hátt. Annette er dóttir Keld Heick sem var og er einn fremsti textahöfundur Dana og er með- ábyrgur fyrir mörgum af vinsælustu Eurovisionlögum þjóðarinnar í gegnum tíðinna, t.d Vi maler byen rod (1989), Ska´du se hva´jeg sa (1988), Disco Tango (1979) og Kroller eller ej (1981, svo nokkur séu nefnd.

Johannes er örlítið nýrri af nálinni, en hann var einn af meðlimum strákabandsins Lighthouse X sem keppti árið 2016 í Stokkhólmi, með lagið “Soldiers of Love”. Þrátt fyrir slæmt gengi lagsins, voru Danir fljótir að fyrirgefa og Johannes er einn af vinsælustu sjónvarpsmönnum landsins í dag og órjúfanlegur hluti af DMGP.

Meðal keppenda í ár er líka hin 47 ára gamla söngkona Sannie Carlsen. Það nafn hringir kannski ekki neinum bjöllum, en einu sinni gekk Sannie undir nafninu Whigfield og var stórstjarna á rave-tímabilinu svokallaða við upphaf 10. áratugarins og átti smelli á borð við “Saturday Night” og “Sexy Eyes”. Samkvæmt viðtölum við söngkonunna, sem hefur þó ekki notast við nafnið Whigfield síðan 2012, er von á sjóðheitri sýningu frá henni og í viðtali við danska blaðið “Se og Hör” sagði hún að kynþokkafyllra atriði hefði aldrei sést í DMGP. Verður gaman að sjá hvað Sannie hristir fram úr erminni á laugardagskvöldið.

Spennandi laugardagskvöld er framundan og þeir sem búa svo vel að vera með DR1 geta að sjálfsögðu nálgast keppnina í beinni þar, nú eða í hinu frábæra tímaflakki. Einnig má horfa á keppnina á https://www.dr.dk/tv/programmer/kanal/seneste/dr1n og hefst hún klukkan 20:30 að íslenskum tíma.