Bretar hafa valið – SuRie til Lissabon


Hin hæfileikaríka og heillandi SuRie fór með sigur af hólmi í bresku undankeppninni fyrir Eurovision, You Decide. Lagið Storm sem SuRie flutti verður því framlag Breta í úrslitum Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Lissabon.

SuRie heitir fullu nafni Susanna Marie Cork og er 28 ára gömul frá Essex í Englandi. SuRie er menntuð í klassískum píanóleik, söng og óbóleik. SuRie er ekki að taka í fyrsta skiptið þátt í Eurovision en hún hefur tvisvar verið í sendinefndum Belgíu í Eurovision. Fyrst árið 2015 í eftirminnilegu atriði Loïc Nottets þar sem SuRie söng bakrödd og 2017 var SuRie tónlistarstjóri Blanche.

Bretar lögðu mikinn metnað í undankeppnina og virðist sem þeim lengi eftir Eurovision sigri. Enda ekki að furða miðað við gengi þjóðarinnar í Eurovision eftir að tungumálareglan var afnumin árið 1999. Breska þjóðin sem áður var næstum áskrifandi að toppsæti deilir nú hinum vafasama titli með Norðmönnum að vera sú þjóð sem oftast hefur lent í síðasta sæti á 21. öldinni. Besti árangur Breta á þessari öld er þriðja sæti árið 2002 þegar Jessica Garlick söng lagið Come Back og fimmta sæti árið 2009 með Jade Ewen og laginu It’s My Time.

Kynnar kvöldsins voru Mel Giedoryc og hinn eini sanni Måns Zelmerlöw. Þau fóru á kostum í sínum hlutverkum með beittum húmor og skotum á Theresu May, Donald Trump og BREXIT, svo eitthvað sé nefnt. Lucie Jones sem keppti fyrir hönd Breta í Kænugarði 2017 opnaði keppnina ásamt Måns Zelmerlöw með ABBA syrpu. Aðdáendum þótti það einkar viðeigandi lagaval þar sem að á sama sviði í tónleikahöllinni Brighton Dome vann ABBA Eurovision árið 1974.

Fimm önnur atriði tóku þátt í keppninni um sætið til Lissabon. Legends flutt af Asöndu, Crazy með Rayu, Astronaut með Liam Tamne, You með Jaz Ellington og I Feel the Love með Goldstone. Að loknum flutningi hvers atriðis gaf sérfræðingapanell skipaður Rylan Clark-Neal, Rochelle Humes og Tom Fletcher álit sitt á lögunum. Dómnefnd skipuð fagfólki úr tónlistarheiminum og almenningur í Bretlandi völdu sigurvegara kvöldsins. Atkvæði dómnefndar giltu til helmings á móti atkvæðum almennings. BBC hefur ekki gefið út hvernig hin lögin fimm röðuðust í sæti.

Fyrir keppnina höfðu margir Eurovisionspekúlantar spáð Asöndu, 16 ára Lundúnamær ættaðri frá Suður-Afriku, sigri. Lagið hennar, Legends, eftir Christopher Wortley, Laurell Barker og Roel Rats, þótti ákaflega grípandi en frammistaða hennar í keppninni þótti aðeins síðri.

Íslenskir Eurovision aðdáendur biðu helst eftir því að sjá Raya flytja lagið Crazy eftir Emil Rosendal Lei, Gretu Salóme Stefánsdóttiu og Samir Salah Elshafie. Greta Salóme hefur áður sagt frá því að BBC hafi haft samband við sig síðasta haust og buðu þeir henni ásamt öðrum lagahöfundum að koma til Danmerkur að semja lag fyrir Eurovision: You Decide. Þannig hafi lagið Crazy orðið til. Raya var fyrst á svið og opnaði keppnina með glæsibrag og mega þau Greta og félagar vera stolt af sínu atriði.

FÁSES liðar gerðu sér glaðan dag og horfðu saman á Eurovision: You Decide á VEÐUR bar/café í Reykjavík. Góð stemning myndaðist þar sem Eurovision aðdáendur kepptust við að styðja sína konu áfram ásamt foreldrum Gretu Salóme. Þó að lagið hennar Gretu hafi ekki orðið fyrir valinu var mál manni að SuRie væri vel að sigrinum komin.