Nú grípum við tækifærin – aldrei gefast upp!

Fókus hópurinn flytur lagið Aldrei gefast upp eftir Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósu Björg Ómarsdóttur, Michael James Down og Primoz Poglajen með texta eftir Þórunni Ernu Clausen í fyrri undankeppni Söngvakeppninnar 10. febrúar nk.

FÁSES.is hitti þau Rósu Björg Ómarsdóttur, Eirík Þór Hafdal, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, Karítas Hörpu Davíðsdóttur og Sigurjón Örn Böðvarsson á dögunum en saman mynda þau Fókus hópinn. Innan hópsins eru tveir FÁSES liðar til margra ára, Eiríkur og Sigurjón, og sá síðarnefndi er meira að segja nú þegar búinn að tryggja sér miða á Eurovision í Lissabon í maí. Fimmenningarnir kynntust í gegnum Voice Ísland 2017 og hafa síðan verið að stíga í vænginn við hvert annað, svona tónlistarlega séð. Augljóst er að Fókus hópnum kemur vel saman og á tímabili var erfitt að halda þræði í viðtalinu, svo mikið var hlegið og gert grín. Fókus hópurinn iðar í skinninu að flytja lagið sitt í Háskólabíó á laugardaginn – svo mikið reyndar að hluti viðtalsins við Fókus er úr fókus og biðjumst við á FÁSES.is innilegrar velvirðingar á því.

Fókushópurinn hefur gert ákaflega krúttað myndband við lagið sem er sjálfsögðu skylduáhorf á.