Aldrei gefast upp, Kúst og fæjó og Heim í úrslit Söngvakeppninnar

Mikið var um dýrðir í Háskólabíó í gærkveldi þegar fyrri undankeppni Söngvakeppninnar 2018 var haldin. FÁSES liðar fjölmenntu í Stúdentakjallarann um fimmleytið til að spá og spekúlera fyrir kvöldið. Eftir nokkra drykki og kvöldverð var þrammað yfir í Háskólabíó í storminum, lúkurnar fylltar af plakötum af keppendum og sest í bestu sæti hússins, beint fyrir framan sviðið.

Ljóst er að RÚV hefur stigið nokkur skref upp á við í sviðsetningu og myndvinnslu. Lítill fugl hvíslaði því að FÁSES að tekjur RÚV af Söngvakeppninni hafa að einhverju leyti runnið til fjárfestinga í nýjum tækjum og tólum og er það vel. Til dæmis hefði verið óhugsandi að sjá svona slow-motion atriði eins og atriði Þórunnar Antoníu í Söngvakeppninni fyrir nokkrum árum.

Jón Jónsson var kynntur fyrr í vikunni sem meðkynnir Ragnhildar Steinunnar í Söngvakeppninni í ár og stóð hann sig býsna vel drengurinn. Björg Magnúsdóttir stóð vaktina í Græna herberginu með keppendum og annars eins hressleiki hefur ekki sést þar lengi!

Eftir að hafa heyrt framlög Þórunnar Antoníu, Tómasar & Sólborgu, Ara Ólafssonar, Fókus hópsins, Heimilistóna og Guðmundar Þórarinssonar var boðið upp á ýmis skemmtiatriði. Valdimar Guðmundsson og Sigríður Torlacius fluttu Amar Pelos Dois, sigurlag Portúgala frá því í fyrra í íslenskri þýðingu Hallgríms Helgasonar, Ást fyrir tvo. Daði Freyr og Árný sem fluttu lagið Hvað með það í Söngvakeppninni 2017 voru einnig með sprenghlægilegt póstkort frá Kambódíu. Í hvetjum alla til að fylgjast með ævintýrum þeirra þar. FÁSES-liðinn Ástríður Margrét Eymundsdóttir var á myndavélinni í gærkveldi og tók þessar frábæru myndir.

Við eru strax farin að hlakka til næsta laugardags þegar önnur undankeppni Söngvakeppninnar fer fram. FÁSES ætlar að hittast aftur fyrir keppni á Stúdentakjallaranum og þangað eru þið öll velkomin!