Niðurstöður aðalfundar FÁSES 2014

Þá er enn einn æsispennandi aðalfundur hjá FÁSES að baki og eru menn almennt sammála um að þetta séu skemmtilegustu aðalfundirnir sem farið er á.

Eyrún Ellý Valsdóttir, formaður FÁSES, byrjaði á að fara yfir skýrslu stjórnar og viðburði síðasta félagsárs. Þetta þriðja starfsár félagsins var viðburðarríkt með barsvörum, stiklupartýjum, hittingum fyrir Köbenfara hér heima og í Danmörku, fréttabréfaskrifum, söngvakeppnisívafi, litríkum Henson-göllum, Melodifestivalengeðveiki, Eurovision Zumba og vefsíðupælingum. Skýrsla stjórnar var samþykkt af fundarmönnum með lófaklappi.

Því næst tók Auður Geirsdóttir, gjaldkeri FÁSES, við pontunni og fór yfir ársreikninga félagsins. FÁSES er alltaf að stækka og stækka og er nú orðið meðal fimm stærstu OGAE klúbbanna og ber bókhald félagsins þess merki. Skoðunarmenn reikninga, þau Reynir Þór Eggertsson og Anna Sigríður Hafliðadóttir, höfðu samþykkt reikninginn fyrir fundinn. Ársreikningur FÁSES fyrir starfsárið 2013-2014 var samþykktur af fundarmönnum.

Fyrir fundinum lágu engar lagabreytingartillögur og satt best að segja vorum við öll fegin enda var samþykktum félagsins breytt töluvert á síðasta aðalfundi með tilheyrandi langdregnum umræðum.

Kosningar

Kosningar voru haldnar um fimm embætti. Gjaldkeri, alþjóðafulltrúi og viðburðar- og kynningarstjóri voru kosinn til tveggja ára og tveir varamenn til eins árs. Sjálfkjörið var í embætti gjaldkera, alþjóðafulltrúa og viðburðar- og kynningarstjóra enda tilkynnti enginn um framboð á fundinum. Leynilegar kosningar fóru fram um stöðu 1. og 2. varamanns. Loks buðu Reynir og Kristín fram krafta sína í stöðu skoðunarmanna.

Niðurstöður kosninga voru því eftirfarandi:

Gjaldkeri: Auður Geirsdóttir

Alþjóðafulltrúi: Flosi Jón Ófeigsson

Viðburðar- og kynningarstjóri: Laufey Helga Guðmundsdóttir

1. varamaður: Steinunn Björk Bragadóttir

2. varamaður: Haukur Johnson

Verkefnanefnd: Þorsteinn Jónsson og Alma Tryggvadóttir

Félagslegir skoðunarmenn: Reynir Þór Eggertsson og Ísak Pálmason

Miðaúthlutunarkerfi

Á aðalfundi FÁSES haustið 2013 kom fram áskorun um að endurskoða fyrirkomulag vegna kaupa á aðdáendapökkum OGAE International á Eurovision ár hvert. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi er litið til félagsnúmers meðlima ef til þess kemur að framboð miða fullnægir ekki eftirspurn félagsmanna. Þá eru það þeir sem hafa lægstu félagsnúmerin sem hafa forgang fram yfir þá sem hafa hærri (þ.e. því lengur sem félagsmaður hefur verið skráður í félagið, því meiri líkur eru á því að viðkomandi fái að kaupa miða).

Stjórn FÁSES útbjó þrjár tillögur þar sem tvær tillögur að breyttu kerfi eru lagðar fram en ein tillagan felur í sér að kerfið haldist óbreytt.

Tillaga 1: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Samkvæmt þessari tillögu standa allir félagsmenn jafnir að vígi þegar auglýstur er frestur um að sækja miða. Miðar yrðu pantaðir með tölvupósti (eða mögulega kerfi á heimasíðu) og auglýst yrði með fyrirvara hvenær opnað væri fyrir umsóknir. Við úthlutun miða yrði farið eftir því hvenær umsóknin barst þannig að þeir sem voru fyrstir til að sækja um hafi mestar líkur á því að fá miða.

Tillaga 2: Fyrstur kemur, fyrstur fær nema fyrir virka fastameðlimi. 

Samkvæmt þessari tillögu yrði notast við blöndu af núverandi kerfi og kerfinu í tillögu 1. Þá myndu reglurnar í tillögu 1 gilda með þeirri undantekningu að þeir sem hafa verið virkir meðlimir í tvö ár í röð (þ.e. þeir sem hafa greitt félagsgjöldin viðkomandi ár og árið á undan) hafa forgang þegar kemur að úthlutun miða. Ef eftirspurn eftir miðum er svo mikil að ekki tekst að útvega öllum í þessum forgangshóp miða, þá verður gripið til fyrstur-kemur-fyrstur-fær-reglunnar til að skera úr um hverjir í forgangshópnum fá miða. Með þessum hætti hafa allir sama möguleika á að komast í þennan forgangshóp ólíkt núverandi kerfi þar sem meðlimir sem skráðu sig við stofnun félagsins munu alltaf hafa forskot á þá sem skráðu sig síðar.

Tillaga 3: Óbreytt kerfi – Félagsnúmerakerfið.

Kosið var um þessar þrjár leiðir og var niðurstaða kosninga sú að halda miðaúhlutunarkerfi FÁSES óbreyttu.

Stjórn FÁSES lagði einnig til að sú regla verði fest í sessi að einungis þeir sem gerast nýjir félagar fyrir 1. október ár hvert og greiði félagsgjöldin fyrir auglýstan frest, eigi kost á að sækja um miðapakka OGAE fyrir næstu Eurovision-keppni. Var þetta samþykkt af fundarmönnum.

 

Í lok fundar köstuðu fundarmenn á milli sín hugmyndum að viðburðum og kenndi þar ýmissa grasa, til dæmis var nefnt að FÁSES ætti að standa fyrir lagabúningakeppni, Júróvision-karaoke og video kvöldum með hinum ýmsum þemum.