Fyrstu æfingar gestgjafans og stóru landanna fimm

Í dag hefjast fyrstu æfingar stóru landanna fimm, Ítalíu, Spánar, Þýskalands, Bretlands og Frakklands og gestgjafanna Úkraínu. Að sjálfsögðu eru allir mest spenntir fyrir Ítalíu enda hefur Francesco Gabbani plantað sér kyrfilega í efsta sæti veðbankanna svo vikum skiptir og lagið Occidentiali’s Karma hefur 100 miljón áhorf á Youtube.

Úkraína

Hljómsveitin O. Torvald syngur lagið Time fyrir gestgjafana í ár. Hér er um að ræða eina rokklag keppninnar en hljómsveitin hefur sem betur fer sleppt stressandi niðurtalningarklukkunum sem við sáum í úkraínsku forkeppninni. Á sviðinu birtist heilmynd af haus og á einum tímapunkti kemur ljós út úr augunum á honum sem virkar hrollvekjandi. Atriðið er lágstemmt og gæti týnst í lokakeppni Eurovision.

Ítalía

Francesco Gabbani syngur lagið Occidentiali’s Karma fyrir Ítalíu í ár og er þetta að margra mati tilvonandi sigurvegari Eurovision. Francesco mætir á svið í svörtum smóking (ætli hann sé frá Dolce & Gabbana?) og með fjórar bakraddir á sviðinu. Lýsing og bakgrunnur er mjög líkur því sem notaður var í San Remo Festival, mjög litríkt með alls konar öpum, höndum, fígúrum, neanderdalsmanninum, jang og jin merkinu og búdda. Að sjálfsögðu er Francesco með górilluna með sér á sviðinu og skemmtilegi dansinn er á sínum stað. Ítalía þarf að vinna í betri myndatöku því lítið er af nærmyndum af þessum myndarlegum manni en það batnar með hverju rennsli. Bakraddirnir eiga greinilega að sýna áhorfendum hvenær eigi að segja Alé! og Namasté! en þær voru ekki alveg í takti í dag. Francesco hefur verið að túra um alla Ítalíu síðustu vikur svo kannski hefur ekki gefist mikill tími fyrir æfingar. Í heildina mjög gott og það verður sannarlega partý á sviðinu 13. maí!

Spánn

Manel Navarro syngur lagið Do It For Your Lover fyrir Spán í ár. Við byrjum á því að sjá í bakið á strákunum fjórum og þeir stara á jörðina sem birtist í bakgrunni. Síðan breytist sviðið í strandarþema í spænska laginu og við fáum að sjá öldur í bakgrunni, volkswagen rúgbrauð, pálmatré og brimbretti á sviðsgólfinu, en því miður virkar það aðeins of klisjukennt og ódýrt. Manel virkar aðeins veikburða í söngnum og hefur ekki mikinn sviðsjarma. Það vekur athygli hér í blaðamannahöllinni að Manel notast ekki við voice sampling á sínu undirspili eins og Noregur gerir (einn bakraddanna syngur stefnið í Do It For Your Lover).

Þýskaland

Levina syngur Perfect Life fyrir Þjóðverja í ár. Atriðið byrjar á því að við sjáum Levinu liggja á gólfinu. Hún er klædd í ferlega flottan búning; hvítan topp með opnu baki og gráu pilsi. Við þetta skartar hún hárgreiðslu sem getur ekki annað en minnt okkur á Jedward tvíburana. Eitthvað virðist rödd Levinu veikburða í dag en myndvinnsla atriðisins er mjög góð og við kaupum það sem Levina er að selja. Lýsingin er grá og hvít og ljósakrónan á sviðinu nýtur sín vel. Sviðsetningin er einföld en mjög smekkleg. Ætli henni takist að ná Þjóðverjum upp úr síðasta sætinu í Eurovision? Allavega ætla þeir að reyna það með pýrótækni!

Bretland

Lucie Jones syngur Never Give Up On You fyrir Breta í ár. Atriðið byrjar með Lucie í nokkurs konar speglaskel og stendur hún ein á sviðinu í gylltum síðkjól. Gylltu eða gulu ljósin púsla síðan upp úr skelinni í takt við tónlistina og kemur það ákaflega vel út. Henni tekst vel upp á æfingunni í dag raddlega séð og maður skyldi aldrei ætla að loksins hafi BBC tekist að koma einhverju ágætu Eurovision atriði saman?

Frakkland

Alma syngur Requiem fyrir Frakka í ár og er síðust til að hefja æfingar í Kænugarði. Alma stendur ein á sviðinu, bakraddir eru utan sviðs, og við fáum að sjá borgarljós Parísar í bakgrunni. Hún er klædd einhvers konar stuttum svörtum og silfurlituum stuttum kjól og það verður að segjast eins og er að æfingin virkaði hálf vandræðaleg í dag hjá henni. Vonandi tekst henni að lagfæra myndvinnsluna fyrir næstu æfingu.