Dansað í gegnum lífið – Eftirminnileg dansspor í Eurovision-sögunni

Eurovision er ekki einungis þekkt fyrir að bjóða upp á fallegar lagasmíðar og söng, oftar en ekki hafa danshæfileikar keppenda vakið jafn mikla (og í sumum tilfellum jafnvel meiri) athygli og söngurinn sjálfur.

Í ár er okkur áhorfendum boðið upp á nokkur dansspor sem eiga eflaust eftir að sitja eftir í minni fólks eftir keppnina og af því tilefni er ekki úr vegi að rifja upp nokkur af eftirminnilegum danssporum, og jafnvel nokkrum sem hafa gleymst, úr Eurovision-sögunni.

 

DANSSPOR ÁRSINS Í ÁR

Við skulum byrja á að fara yfir þau dansspor ársins í ár sem gáfu pistlahöfundi innblástur þegar kom að þessum pistli. Þar fyrst ber að nefna náladofa-dansinn sem Moldóva býður upp á.

Stuðboltarnir í SunStroke Project á samt fríðu föruneyti brúðarkjólaklæddra bakraddasöngkvenna hafa vakið athygli fyrir dansspor sín, sem minna helst á að þau hafi setið of lengi á annarri löppinni áður en stigið var á svið. En til allrar hamingju ná þau að hrista mestan doðann úr löppunum og eru farin að hoppa um í takt þegar sirka helmingurinn er liðinn af laginu. Þar sem atriði þeirra Moldóvumanna hefur ekki breyst mjög mikið frá því sem þeir buðu uppá í forkeppninni heima fyrir þá látum við fylgja myndbandið úr þeirri keppni.

Moldóva 2017 – SunStroke Project – Hey Mamma 

 

Annað atriði sem hefur vakið athygli er Dressman-auglýsingin frá Svíþjóð. Robin Bengtsson og félagar nýta sér göngubretti til að fanga athygli áhorfenda og tekst þeim bara svona ansi vel að halda jafnvægi á þeim á meðan laginu stendur.

Svíþjóð 2017 – Robin Bengtsson – I Can’t Go On

 

Þriðja og síðasta dansspor ársins í ár er það sem hefur eflaust vakið hvað mesta athygli, en það er ítalski górilludansinn. Hann hefur eflaust vakið hvað mesta athygli, en myndband ítalska lagsins býr yfir mesta áhorfið á Youtube af framlögum ársins í ár. Það eru því eflaust margir sem munu dansa með þegar Francesco stígur á svið þann 13. maí.

Ítalía 2017 – Francesco Gabbani – Occidentali’s Karma

 

ELDRI DANSANDI ÁHUGAVERÐ FRAMLÖG

FÓTAFIMI

Fótafimi er eiginleiki sem þykir vera mikilvægur þegar kemur að dansi. Eurovision er því ekki undanskilið, þótt að fótafimin sem við höfum ákveðið að rifja upp sé kannski ekki í ætt við hinn klassíska vals.

Það fór kannski ekki rosalega mikið fyrir dansinum í atriði Möltu frá 2012 en litlu hliðar-saman-hliðar fótahreyfingarnar hans Kurt og félaga náði þó að fanga athygli áhorfenda í þær sekúndur sem þær stóðu yfir. ‘Stöppum-í-gólfið’ hreyfingin á undan var reyndar líka áhugaverð.

Malta 2012 – Kurt Calleja – This Is The Night 

 

Fótafimi hinnar spænsku Barei vakti mikla athygli í fyrra og höfðu margir áhyggjur af því hvort hún hreinlega stæði í lappirnar meðan á dansinum stóð. Barei hefur kannski heyrt áhyggjuraddirnar og ákveðið að stríða aðeins áhorfendum þegar hún ákvað að „detta“ á sviðinu, en þegar hún var spurð út í ástæður fallsins útskýrði hún að þetta ætti að tákna að maður ætti alltaf að standa mér sjálfum sér þrátt fyrir hindranir í lífinu (mjög djúpt allt saman).

Spánn 2016 – Barei – Say Yay!

 

YMCA-ÁHRIFIN

Með YMCA-áhrifunum er átt við þegar partur af lagi er túlkaður á mjög bókstaflegan og sjónrænan hátt.

Íslenska framlagið frá 2014 vakti líklegast meiri athygli fyrir litadýrðina heldur en danssporin (þótt hliðar-saman-hliðar parturinn hafi verið ansi skemmtilegur). En loka ‘pósan’ vakti þó athygli, þar sem meðlimir Pollapönks mynduðu orðið LOVE með líkömum sínum. Takið sérstaklega eftir einstökum liðleika gula Pollans.

Ísland 2014 – Pollapönk – No Predujice

 

Grikkirnir árið 2005 tóku YMCA á nýtt stig og táknuðu tölu í stað orðs með líkömum dansaranna það árið. Talan sem um ræðir er auðvitað talan einn, í samræmi við titil lagsins My Number One. Þessi gjörningur virðist hafa haft mjög góð áhrif þar sem lagið endaði í fyrsta sæti, eins og allir ættu að muna eftir. Annað dansspor sem Grikkland bauð uppá er kannski ekki hægt að tengja beint við YMCA, en ef við teygjum aðeins hugtakið þá finnum við tengslin með því að líta á hversu bókstaflega þeir Grikkir ákváðu að túlka gríska hljóðfærið lýru. Í ákveðnum kafla lyfta nefnilega einn dansarinn Helenu upp í loft og hún dregur strengi úr buxnastreng annars og þykist spila á hljóðfærið. Svo buðu þeir Grikkir okkur reyndar líka uppá gríska „OPA“ dansinn, þannig að þetta atriði er í raun eitt stórt eftirminnilegt dansatriði.

Grikkland 2005 – Helena Paparizou – My Number One

 

HANDAPATIÐ

Spánverjar buðu upp á djarfan dans innblásinn af flamenco árið 1990 þar sem hendurnar voru í aðalhlutverki. Þetta þótti til þó nokkurra tíðinda á þeim tíma þar sem að gera út á kynþokka keppenda var var ekki eins áberandi og það virðist vera í dag. Atriðið vakti þó einnig athygli fyrir þær sakir að „playback-ið“ klikkaði eitthvað á sviðinu í Zagreb og þurfti því að stoppa atriðið og byrja upp á nýtt. Það kom þó ekki stórkostlega að sök þar sem Spánverjar enduðu í fimmta sæti.

Spánn 1990 – Azucar Moreno – Bandido

 

25 árum seinna bauð Ísrael upp á annars konar handapat, nokkurs konar handasveiflur. Hinn þá 16 ára Nadav Guedj og dansarar hans sveifluðu höndunum af áfergju í viðlagi lagsins og var þetta einn vinsælasti dansinn á dansgólfinu á Euroclub í Vínarborg þetta árið. Reyndar samanstóð restin af dansinum af miklu handapati og gaman er að segja frá því að lagið hefur mikið verið notað af ákveðnum íslenskum Zumba-kennara.

Ísrael 2015 – Nadav Guedj – Golden Boy

 

FATAPÓKERINN

Þótt að fatapóker sé ekki dans í eiginlegri merkingu athafnarinnar þá hefur athöfnin að rífa sig úr fötunum verið mjög vinsæl á Eurovision sviðinu.

Lettum tókst árið 2002 að blanda saman dansi og að rífa sig úr fötunum á mjög svo eftirminnilegan og árangursríkan hátt. Söngkonan Marie N hóf atriðið í hvítum jakkafötum, en eftir mikinn dans og fatatengdar „afrífingar“ endaði Marie N í aðsniðnum laxableikum kjól. Dansinn var það áhrifaríkur að Lettar hvorki meira né minna en unnu allt heila klabbið.

Lettland 2002 – Marie N – I Wanna

 

Nágrannar Lettana, Litháar, buðu okkur upp á sína útgáfu af fatapóker í Osló 2005. Í upphafi atriðisins voru þeir félagar í InCulto fullklæddir í skyrtu, bindi og köflóttar buxur en þegar lagið náði ákveðnum hápunkti, þegar um 30 sekúndur voru eftir af laginu, rifu þeir sig úr buxunum og við blasti níðþröngar glimmerstuttubuxur. Auk fatapókersins buðu Litháar upp á ágætis „luft“-spil á hin ýmsu hljóðfæri, og svo auðvitað hið klassíska hliðar-saman-hliðar. Því miður var atriði Litháa 2010 ekki eins áhrifaríkt og atriði nágranna þeirra frá 2002, en Litháum tókst ekki að komast uppúr undankeppninni þetta árið og enduðu í 12. sæti í seinni undankeppninni.

Litháen 2010 – InCulto – Eastern European Funk

 

ÞRIGGJA MÍNÚTNA ERÓBIKKTÍMINN

Dans getur verið mismunandi kraftmikill og stundum er lagt svo mikið í kraftinn að maður fær það á tilfinninguna að viðkomandi flytjendur séu í þriggja mínútna eróbikktíma í Reebok Fitness.

Framlag Moldóvu árið 2009 er eitt af þessum atriðum, þótt það sé kannski ekki það atriði sem dettur upp í huga flestra. Orkan var í hámarki hjá Moldóvu þetta árið en dansinn var innblásinn af þjóðdansahefð Moldóvu. Til að undirstrika orkumikla stemmningu atriðisins þá fékk bakraddasöngvarinn ekki einu sinn frí, þar sem hann stóð aðeins til hliðar og sveiflaði stóru priki af áfergju upp í loftið á meðan atriðinu stóð.

Moldóva 2009 – Nelly Ciobanu – Hora Din Moldova

 

Annar orkubolti sem er eflaust aðeins fleiri muna eftir er hin úkraínska Verka Serduchka. Atriði Úkraínu árið 2007 var einstaklega orkumikið þar sem Verka og félagar dönsuðu, afsakið frönskuna, af sér rassgatið í þær þrjár mínútur sem atriðið stóð yfir. Til að ýta undir orkusprengjuna byrjar Verka að hlaupa hring um sviðið á einum tímapunkti. Svo má reyndar ekki gleyma handahreyfingunum sem fylgdu „na-na-na-na-na“ kaflanum í laginu, en það er erfitt að spreyta sig ekki á þeim þegar lagið er spilað.

Úkraína 2007 – Verka Serduckha – Dancing Lasha Tumbai

 

ÚPS! ÁTTI ÞETTA AÐ GERAST

Atriði Spánverja árið 2008 vakti athygli fyrir ýmislegt, en hér leggjum við mesta áherslu á tvær af dansdömunum sem veittu Rodolfo Chikilicuatre félagsskap á sviðinu í Belgrad. Með Rodolfo voru fimm dansarar, þrjár sem áttu eflaust að líta út fyrir að vera alvarlegir dansarar og tvær sem bjuggu yfir aðeins meira skemmtanagildi. Þær tvær vöktu nefnilega meiri athygli fyrir mismikla danshæfileika sína. Á ákveðnum tímapunkti dettur meira að segja önnur þeirra og þegar áhorfendur litu atriði fyrst augum voru eflaust einhverjir sem supu hveljur og veltu því fyrir sér hvort að fallið hafi verið ásetningur. Það var og, fallið og í raun atriðið í heild sinni var einn stór djókur. En eftirminnilegt engu að síður.

Spánn 2008 – Rodolfo Chikilicuatre – Baila El Chiki Chiki

 

GAMALT OG GOTT

Við ljúkum þessum pistli með tveimur atriðum frá áttunda áratugnum sem hafa öðlast eilíft líf þökk sé vefsíðum á borð við Youtube.

Fyrra atriðið er framlag Austurríkis árið 1977 þar sem bæði dans og búningar vöktu mikla athygli. Búningarnir voru áhugaverðir fyrir þær sakir að karlkyns söngvararnir á sviðinu voru klæddir í hvít jakkaföt að framan, en þegar þeir snéru sér við mátti sjá svört jakkaföt ásamt því að þeir voru með andlitsgrímur á hnakkanum. Danssporin voru heldur ekki af verri endanum, í raun er ekki hægt að lýsa þeim, það er frekar viðeigandi að segja sjón er sögu ríkari. Takið líka eftir tengingunni við Ástralíu í texta lagsins.

Austurríki 1977 – Schmetterlinge – Boom Boom Boomerang

 

Til að ljúka þessari umfjöllun um áhugaverð dansspor í sögu Eurovision er ekki annað hægt en að rifja upp eitt af eftirminnilegustu atriðum Eurovision-sögunnar, framlag Þjóðverja árið 1979. Það er í boði hljómsveitarinnar Dschinghis Khan með samnefnt lag, og eins og nafnið gefur til kynna er Dschinghis Khan sjálfur innblástur atriðisins. Sjálfir flytjendur lagsins voru kannski ekkert rosalega yfirdrifnir, þrátt fyrir áhugaverða búninga. En það er dansarinn á sviðinu sem vekur hvað mesta athygli, hann er hreint út sagt magnaður.

Þýskaland 1979 – Dschinghis Khan – Dschinghis Khan