MARO fer með tregafullan saknaðarsöng til Torínó.


Bom dia kæru lesendur og velkomnir, þó seint sé, til Portúgal og Festival de Cancaó 2022. Marsmánuður, eins og gefur að skilja, fór að mestu leiti undir íslensku Söngvakeppnina, en það voru einnig önnur lönd sem völdu sitt framlag þann 12. mars síðastliðinn. Þar á meðal var hið ægifagra land Portúgal, sem er eitt af þeim löndum sem sólarþyrstir Euroaðdáendur þrá að heimsækja aftur. Forkeppnin þeirra, Festival de Cancaó, hefur verið ákveðinn vorboði seinustu 58 árin, en keppnin hóf fyrst göngu sína árið 1964 og hefur síðan stimplað sig allrækilega inn í portúgölsku þjóðarsálina sem skemmtiefni og stökkpallur fyrir upprennandi tónlistarmenn, en flytjendur á borð við Dulce (´91), Anabel (´93) og Söru Tavares (´94) skutust fyrst upp á stjörnuhimininn þegar þær unnu keppnina á sínum tíma. Og ekki má gleyma Love Actually-stjörnunni og eilífðaruppáhaldinu Luciu Moniz, en landar hennar og heimurinn allur, vissu ekki af tilvist hennar fyrr en hún vann FdC (smá stytting) árið 1996 og tryggði í kjölfarið landi sínu besta árangurinn fram að því. En nýtt ár og nýjar stjörnur. Nú fáum við að hitta MARO.

See the source image

Portúgalir buðu að vanda upp á frábært skemmtikvöld og mátti nú sjá kunnuleg andlit ef vel var að gáð. Hin meinfyndna Filomena Cautela, sem við munum öll eftir sem (kalt mat) BESTA kynninum frá 2018, var mætt aftur sem kynnir á lokakvöldinu sem fram fór í höfuðstöðvum RTP í Lissabon. Eftir tvær undankeppnir voru það tíu lög sem hófu endasprettinn og í lok kvölds var á kristaltæru að söngkonan MARO hafði gjörsamlega tekið keppinauta sína í nefið. Hún vann bæði símakosningu og dómnefndarkosningu og mun því mæta til Tórínó, ásamt fimm bakraddasöngkonum, með hið tregablandna og fallega lag „Saudade, Saudade“, en á ástkæra ylhýra útleggst það sem Söknuður. MARO hefur þó ákveðið að sakna sumra keppinauta sinna ekki of mikið en hún hefur nú bætt söngkonunum Diönu Castro og Milhanas í bakraddahópinn sinn góða, en þær stöllur lentu í öðru og þriðja sæti á eftir MARO í FdC.

Mariana Brito da Cruz Forjaz Secca er 27 ára gömul og ákvað sem betur fer að taka sér listamannsnafnið MARO snemma á ferlinum. Upphaflega ætlaði hún sér í dýralæknanám en tónlistin togaði í hana og úr varð að hún skráði sig í hinn virta skóla Berklee College of Music. Hún flutti í kjölfarið til Los Angeles, þar sem hún bjó og starfaði í nokkur ár, áður en hún ákvað að flytja aftur heim til Portúgal. Hún hefur víða komið við í gegnum tíðina og hefur m.a. sungið með Eric Clapton og Salvador Sobral, svo við köstum nú fram þekktum nöfnum hér. Hennar rætur í tónlistinni liggja sennilega hvað mest í Fado-stílnum sem Portúgalir eru svo þekktir fyrir, en lög MARO eru þó örlítið í poppaðri kantinum, án þess þó að glata sjarmanum sem fylgir Fado-tónlistinni.  „Saudade, Saudade“ semur hún sjálf í samstarfi við John Bland og sviðsetning lagsins þykir einföld en áhrifarík. Minna er meira að mati MARO.

The Black Mambas komu, sáu og tóku Fagra Blakkinn alla leið og lengra í fyrra, þegar þeir sungu sig beint í 12. sætið í Rotterdam með “Love is on my side”. MARO verður eflaust ekki í vandræðum með að fylgja í fótspor þeirra en hún mun stíga á svið í seinni undankeppninni þann 12. maí næstkomandi. Lágstemmd, falleg Fado-poppballaða er það í ár, og er það vel. Við óskum MARO og vinkonum hennar góðs gengis.