Norskur úlfur á leið til Tórínó. Fer hann svangur eða saddur?


Norðmenn buðu, aldrei þessu vant, upp á fremur tíðindalitla MGP í ár, en héldu sig þó við gamalkunna formúlu. Fjórir undanriðlar, einn svartipétur og svo var skellt í flotta aðalkeppni. En þrátt fyrir að keppnin hafi verið tilþrifalítil, voru þó ljósir punktar innan um og saman við og sumir voru ekki bara ljósir. Þeir voru ljósárum á undan öllum hinum. Strax og lög og flytjendur voru kynnt til sögunnar, tók leynisveitin Subwoolfer áberandi forystu í veðbönkum og sat sem fastast þar. Og Norðmenn voru alveg að kveikja á gulu geimúlfunum, þeim Jim og Keith, sem segjast koma frá tunglinu og séu að læra inn á siði okkar jarðarbúa, því þeir áttu ekki í miklum vandræðum með að rústa keppinautum sínum gjörsamlega og munu því trylla lýðinn í Tórínó í vor.

Þegar fyrstu fjóru undanriðlunum var lokið, tilkynnti NRK að svartapétri yrði úthlutað. Fjögur atriði til viðbótar kepptu um seinasta miðann í úrslitin, en áhorfendur höfðu kosið á milli allra þeirra atriða sem eftir stóðu, og voru það bleikklæddu metalhausarnir í Trollfest, óperupopparinn Kim Wigaard, poppdúllan Mari Bolle og wiccanmærin Maria Mohn sem urðu hlutskörpust. Síðan komust Maria Mohn og Trollfest í gulleinvígið svokallaða, þar sem Maria hirti endanlega miðann í úrslitin, með lagið “Fly”.

Áður en MGP var hleypt af stokkunum, ákvað NRK að hafa sama háttinn á og í fyrra og veita nokkrum keppendum fyrirfram pláss á úrslitakvöldinu. Voru einmitt Subwoolfer á meðal þeirra keppenda, en einnig Elsie Bay, NorthKid, Christian Ingebrigtsen og Anna-Lisa Kumoji. Það var því svo sannarlega mikið um dýrðir í Oslo Spectrum seinasta laugardag, en 500 áhorfendur voru leyfðir í höllinni og hafði það mikið að segja fyrir stemmninguna.

Þegar búið var að telja saman stigin, sem skipt var eftir landshlutum, voru það Subwoolfer annarsvegar sem hlotið höfðu mestu náðina fyrir augum landa sinna, og hinsvegar poppsveitin NorthKid. Það var nokkuð óvænt, þar sem flestir, ef ekki allir höfðu spáð Elsie Bay alla leið í gulleinvígið. En norðlendingarnir höfðu því miður ekki erindi sem erfiði, því gulu úlfarnir voru komnir frá tunglinu til að sigra og ekkert minna var í boði. Veganúlfurinn og amma ætla að trylla lýðinn í Tórínó í vor, og norska fánanum verður eflaust sveiflað víða um lönd í maí.

Það eru auðvitað uppi mýmargar getgátur um hverjir séu á bakvið félagana Keith og Jim og speisaða plötusnúðinn DJ Astronaut. Ein lífseigasta sagan er sú að þetta séu þeir Ylvis-bræður; Bård og Vegard Ylvisåker, sem gerðu garðinn frægan um árið með „What does the fox say?” og tilhugsunin um að fá grínbræðurna í Eurovision, er eflaust blautur draumur margra aðdáenda. En nú hefur blaðamaður hjá VG eitthvað slökkt í þeim vonarglæðum, því hann telur nánast öruggt að söngvararnir Ben Adams, sem er þekktastur fyrir að hafa sungið með strákasveitinni A1, og Gaute Ormåsen, sem er vel þekktur söngvari úr MGP, séu í raun geimúlfarnir síkátu, og byggði þá kenningu á því að bílar þeirra félaga voru staðsettir fyrir framan upptökuver í Bærum, þar sem verið var að taka upp raddirnar fyrir „Give That Wolf a Banana”. NRK varðist allra fregna og vildi hvorki neita né staðfesta grunsemdir VG. Hafa ber í huga að það var VG sem fyrst fletti ofan af Tindersvindlaranum forðum daga, svo þeir kunna nú sitthvað fyrir sér í rannsóknarblaðamennsku. En hverjir sem standa á bakvið Subwoolfer, þá er nokkuð ljóst að það verður bilað partý í kringum þá í Tórínó og við hlökkum svo sannarlega til að sjá hvaða uppátækjum tunglbúarnir taka upp á, og munu þeir yfirgefa Ítalíu svangir eða saddir?