Litháíska forkeppnin Papandom is Naujo er að margra mati bæði einstaklega skemmtileg en jafnframt algjör langloka, með ótal undanriðla og forkeppnir. Í ár var svosem ekkert verið að flækja málin neitt óskaplega mikið. Bara þrír undanriðlar og tvær forkeppnir þar sem samtals 36 flytjendur tókust á. Jafnt og þétt var fækkað í hópnum, þar til aðeins átta keppendur stóðu eftir, þ.á.m krúttmonsan Ieva Zazimauskaité sem við munum vel eftir frá Lissabon. En þegar stig höfðu verið talin, var það söng-og lagahöfundurinn Monika Liu sem fagnaði sigri með lagið “Sentimentai”.
Dúndurtríóið The Roop gerði það gott í Rotterdam í fyrra og dansóðir júróaðdáendur átu gulklædda diskótekið þeirra með glimmeri, pallíettum og tilbehör. Í ár var algjörlega farið í hina áttina, þar sem framlag þeirra “Sentimentai” er ákveðið afturhvarf til 6. og 7. áratugs seinustu aldar, en þetta er djassskotinn ástaróður með smá Supremes fíling ef vel er að gáð. Keppnin seinasta laugardagskvöld var bráðskemmtilegt, en það var þó nokkuð ljóst frá upphafi að Monika átti svæðið með húð og hári. Aðalspennan fólst í hver myndi landa öðru og þriðja sæti, en þar áttust við söngkonan Augusté Verdickaité annars vegar, en hún söng lagið “Before You´re 6ft Under” og hinsvegar hin hornstóra og dásamlega dragdrottning Lolita Zero, sem flutti “Not Your Mother” með bilaðslega miklum bravúr. En Ieva vinkona okkar var ekki upp á sitt besta og vermdi næstseinasta sætið í lok kvöldsins.
Monika vann símakosninguna og dómnefndarkosninguna með yfirburðum, enda er lagið hennar gjörsamlega búið að slá í gegn í heimalandinu og landar hennar eru algjörlega hugfangnir af “Sentimentai” og Moniku sjálfri. Og gaman er að geta þess, að þetta er í fyrsta skiptið síðan 1994, sem Litháar senda lag á móðurmálinu. Þó með örlítilli undantekningu árið 1999, þegar lagið “Strazdas” var sungið á mállýskunni samogitian, sem er töluð að mestu í norðurhluta landsins og af smárri prósentu þjóðarinnar. Sá söngur var fluttur af söngkonunni Aisté, sem var reyndar meðlimur dómnefndarinnar ásamt hinum geðþekka söngvara Vaidotas úr The Roop.
Monika Liu heitir fullu nafni Monika Liubinaité og er fædd í borginni Klaipéda í Litháen fyrir réttum 34 árum. Hún er þaulmenntuð söngkona og hefur lært tónlist og dans frá blautu barnsbeini, og státar m.a af gráðu frá Berklee tónlistarháskólanum í Boston, og bjó lengi í London þar sem hún starfaði við tónlist. Eftir að Monika flutti aftur heim til Litháen, hefur hún komið víða við og er landsþekkt sem bæði dómari í The Voice og raunveruleikaþátttunum The Masked Singer. Monika er hrikalega spennt fyrir þessu gullna tækifæri og hefur lofað hátt og í hljóði að gera sitt allra allra besta til að landar hennar verði stoltir af henni og að heilla vonandi Evrópubúa upp úr skónum í leiðinni. Lagið semur hún sjálf, og líkt og áður sagði, er lagið poppskotinn djassmoli undir sterkum áhrifum frá meisturum á borð við Burt Bacharach og Diönu Krall, sykrað með smá Supremes. Skemmtileg retróblanda hér á ferð.
Litháar hafa sennilega verið happasælastir Eystrasaltsþjóðanna frá því þeir mættu til leiks í Dublin árið 1994, þó svo þeir hafi aldrei unnið keppnina. Þeir hafa þó fram yfir nágranna sína, að hafa oftast komist áfram og oft hafa þeir komið sér vel fyrir í efstu 15 sætunum, meðan Eistar og Lettar hafa þurft að snúa heim með skottið milli fótanna. Hvort þeir raði sér í topp tíu og jafnvel bara alveg á toppinn með hjálp Moniku Liu á eftir að koma í ljós en við myndum svosem ekkert fúlsa við litháískum sigri á einhverjum tímapunkti, þar sem Vilníus þykir ægifögur á vorin. Sjáum hvað setur.