Júró-Gróa lætur sitt ekki eftir liggja


Þrátt fyrir að Júró-Gróa komist hvorki lönd né strönd í ár og sé í hálfgerðri sóttkví heima hjá sér í Garðabænum, þá lætur hún það ekki aftra sér í að fylgjast með slúðrinu. Með hjálp tölvutækninnar getur hún fylgst vel með hvað er að gerast í Eurovision heiminum og er í beinu sambandi við alla vini sína sem eru á vettvangi í Rotterdam og um allan heim.

Góðvinur Gróu og keppandi San-Marínó, Senhit, hefur ekki viljað gefa upp við Gróu hvort að söngvarinn Flo Rida muni mæta til Rotterdam. Gróa tók samt eftir því að Flo Rida er með á viðburðadagatalinu sínu dómarastörf í bikiní keppni í Miami á sama tíma og keppnin er í Rotterdam. Við vonum að Flo Rida hafi ekki tvíbókað sig og að þetta sé misskilningur, því hann gæti valdið aðdáendum sínum á Flórída miklum vonbrigðum þegar hann mætir ekki á bikiníkeppnina – eða það sem verra er að hann taki bikíni keppnina fram yfir Eurovision.

Gróa er búin að senda sænsku sendinefndinni uppskriftina að engifer djúsinum sínum til að gefa Tusse sænska keppandanum, en hann er búinn að vera að kljást við erfiðleika með röddina og þurfti víst að fara í aðgerð á raddböndum núna fyrir skemmstu. Christer Björkman fyrrum fararstjóri sænsku sendinefndarinnar er kominn til Rotterdam til að vera þulur í sænska sjónvarpinu. Gróa skynjar á Christer að það sé erfitt fyrir hann að sleppa tökunum af fararstjóra hlutverkinu og sé með puttana í öllu. Christer hefur miklar áhyggjur af því að Tusse muni ekki getað haldið laginu uppi og er þess vegna búinn að bjóða sendinefndinni í austurlenskan mat, t.d. stirfry-bat, til að reyna að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Við vonum bara heitt og innilega að Tusse verði búinn að ná sér fyrir úrslitin og að ekki komi til þess að það þurfi að nota beint-á-bandi upptökuna.

Í Rotterdam þurfa sendinefndirnar að viðhafa strangar sóttvarnir og flæða spritt og grímur um allt. Það er ekki flókið fyrir íslenska hópinn að fylgja þessum reglum enda vel þjálfuð frá Íslandi í að hlýða Víði. Það á víst ekki við um alla sem gista á sama hóteli og íslenski hópurinn, því það er mismunandi hversu alvarlega aðrir hótel gestir framfylgja sóttvarnarreglunum. Við skulum vona að það muni ekki draga dilk á eftir sér.

Þó að nóg sé til af spritti og grímum í Rotterdam þá eru birgðir af barnapúðri í verslunum víst farnar að láta á sjá. Aðstoðarmenn Kýpur og Ísrael flakka búð úr búð til að hamstra barnapúður enda virðist ekki veita af því, þar sem búningarnir sem þau eru í á sviðinu eru ekki hannaðir af 66° norður og anda ekki sérlega vel á eldheitu sviðinu.

Það vekur þó athygli Gróu að Aserar séu ekki í hópi með Kýpur og Ísrael með heitustu stemminguna á fyrstu æfingunum. Aserar sem hafa hingað til verið meistarar í að nýta eldtækni voru ekki með neina elda á fyrstu æfingunni og því veltir Gróa því fyrir sér hvort að eitthvað sé farið að grynnka í asersku pyngjunni. Við vitum ekki hvort að Hollendingar séu að rukka svona mikið fyrir eldtæknina, en það virtist ekki vera vandamál fyrir Norðmenn sem voru með eld á sinni æfingu. Norski olíusjóðurinn sem er hvort eð er botnlaus hlýtur að hafa tekið það á kassann.

Gróa segir yfir og út í bili – heyrumst síðar í vikunni.