Aldrei hafa fleiri áhorfendur verið á Eurovision en þann 12. maí 2001 á Parken í Kaupmannahöfn, hvorki fleiri né færri en 38.000! Það reyndist ekki vel heppnað að hafa svona rosalega marga áhorfendur. Hávaði, læti og öngþveiti. Hluti áhorfenda sá alls ekki á sviðið. Við vitum líka hvað var næst á dagskrá. Fyrst hryðjuverk og síðan heimsfaraldur. Þannig að í dag mega ekki vera svona margir áhorfendur við beina útsendingu og við viljum það ekki heldur, nú þegar við erum öll almannavarnir. Þetta áhorfendamet verður því kannski bara aldrei slegið.
Kynnar voru Natasja Crone Back og Søren Pilmark. Þau reyndu að fara með mest allt sitt mál í bundnu máli og eru skiptar skoðanir um ágæti þess. Olsen bræður sem unnu árið áður voru fyrstir á svið, fluttu nýtt lag, Walk Right Back og svo að sjálfsögðu Fly On the Wings of Love. Atriðið í hléi var einnig stjörnum prýtt, hljómsveitin Aqua og Safri Duo. Á þessum árum máttu löndin sem voru með lélegasta meðalárangur í síðustu fimm keppnum ekki vera með. Að þessu sinni voru það Austurríki, Belgía, Kýpur, Finnland, Makedónía, Rúmenía og Sviss sem sátu heima. Það var sérstaklega athyglisvert í þessari keppni hvað lögum sem voru í síðari hlutanum gekk betur en þeim í fyrri hlutanum. Til dæmis voru Íslendingar og Norðmenn sem deildu síðasta sætinu þetta árið með atriði númer 2 og 4. Þetta var annað árið sem Eurovision var sýnd á netinu og bauðst keppendum að spjalla við keppendur í netspjalli, sem var þá nýjasta nýtt.
Sigurvegararnir voru enn og aftur sögulegir. Að þessu sinni komu þeir frá Eistlandi, Tanel Padar og Dave Benton ásamt 2XL hópnum. Dave Benton er sérstaklega sögulegur sigurvegari, bæði fyrsti blökkumaðurinn (upprunalega frá Arúba) og einnig sá elsti hingað til, 50 ára og 101 dags, eða 42 dögum eldri en Jørgen Olsen þegar hann vann árið áður. Tanel var hins vegar eini keppandi kvöldsins sem hafði keppt áður, en hann var í bakröddum árið áður hjá Ines, þáverandi kærustu sinni. 2XL hópinn skipuðu Lauri Pihlap, Kaido Poldma, Sergei Morgun og Indrek Soom. Lagið sem þeir tóku heitir Everybody og fáir skilja af hverju það vann! Eina skýringin sem undirrituð hefur heyrt er frá Páli Óskari sem segir að taktur lagsins sé eins og í Sex Bomb með Tom Jones. Lagið er eftir Ivar Must og textinn eftir Malan-Önnu Kärmas, en hún keppti sjálf fyrir Eistland 1996 og 1997. Eistland varð fyrsta ríki fyrrum Sovétríkjanna til að vinna Eurovision.
Danir urðu sjálfir í öðru sæti með lagið Never Ever Let You Go. Þið getið reynt að ímynda ykkur stuðið á Parken þgar lagið var flutt, þvílík og önnur eins fagnaðarlæti hafa sjaldan sést og margir héldu að Danir ynnu aftur. Það var dúettinn Rollo & King sem flutti ásamt söngkonunni Singe Svendsen. Dúettinn skipa Søren Poppe og Stefan Nielsen. Lagið er eftir Søren. Þetta lag hefur verið vinsælt á Íslandi í 20 ár, en Everybody náði þó inná fleiri vinsældarlista en Never Ever Let You Go.
Í þriðja sæti varð sænsk-gríski hópurinn Antique með lagið (I would) Die For You og hefur það lag líka elst vel. Hópurinn keppti fyrir Grikkland. Helena Paparizou fór fyrir flokknum. Hún sigraði svo Eurovisionkeppnina fjórum árum síðar með lagið My Number One. Helena hefur átt farsælan tónlistarferil frá árinu 1999, en hún hóf ferilinn í grískri þjóðlagatónlist. Helena verður fertug í byrjun næsta árs.
Lagið sem varð í fjórða sæti, Je N´ai Que Mon Ame eða Ég hef bara sálina mína flutt af Natöshu St Pier fyrir Frakkland er líka sögulegt. Þetta var 47. Eurovisionlag Frakka og það fyrsta sem þeir sungu ekki bara á frönsku. Það var tekinn smá kafli á ensku. Vissulega höfðu þeir bara sex sinnum áður haft val. Lagið er eftir Jill Kapler.