Góðkunningjar Eurovision 2021


Eurovision er ákveðin fíkn og á það ekki einungis við um aðdáendur, því keppendur ánetjast oft Eurovision-sviðinu. Á hverju ári má sjá kunnugleg andlit á meðal keppenda og árið í ár er engin undantekning.

En hverjir eru góðkunningjar Eurovision ársins 2021?

Serbía

Hin serbneska Sanja Vučić er einn þriðji af serbneska tríóinu Hurricane. Margir kannast eflaust við hana frá því herrans ári 2016, en þá keppti hún fyrir hönd Serba með laginu „Goodbye (Shelter)“. Náði hún ágætis árangri það árið, en lagið náði tíunda sæti í sinni undankeppni og komst því í aðalkeppnina. Þar endaði hún í 18. sæti með 115 stig.

Hún Sanja er þó ekki sú eina úr serbneska tríóinu sem á endurkomu í ár. Ksenija Knežević á sér einnig Eurovision-sögu, en hún var partur af bakraddateymi Svartfjallalands árið 2015 og er einmitt dóttir söngvarans Knez sem flutti svartfellska framlagið „Adio“. Var það annað framlag Svartfjallalands sem komst áfram í aðalkeppnina, þar sem það endaði í 13. sæti með 44 stig, en lagið var samið af engum öðrum en serbneska Eurovision-kónginum Željko Joksimović.

Moldóva

Natalia Gordienko lét líða 15 ár (14 ef við tökum árið í fyrra með) þangað til að hún mætti aftur á svæðið, en hún tók þátt fyrir hönd Moldóvu árið 2006. Var hún annar helmingur dúetts sem flutti lagið „Loca“ sem endaði í 20. sæti með 22 stig. Það ár voru reglurnar á þá leið að þau 10 lönd sem náðu bestum árangri árið áður, ásamt þeim löndum sem eiga fast sæti, komust beint í úrslitin. Þar sem Moldóva, með ömmuna á trommunni til hjálpar, hafði endað í sjötta sæti árið 2005 átti landið sæti í úrslitunum 2006. Hinn helmingur dúettsins, Arsenium, var á sínum tíma meðlimur í strákasveitinni O-Zone sem var hvað þekktust fyrir lag sitt „Dragostea din tei“, en það eru eflaust ansi margir þarna úti sem dilluðu sér ákaft við þann smell árið 2003.

Í ár var Natalia í slagtogi með engum öðrum en tveimur af meðlimum „Draumateymisins“, þeim Philipp Kirkorov og Dimitris Kontopoulos. Hafa þeir samið ógrynnin öll af Eurovision-smellum, þar á meðal saman „You are the only one“ og „Scream“ með hinum rússneska Sergey Lazarev, „Shady Lady“ með hinni úkraínsku Ani Lorak og „Work Your Magic“ með hinum hvítrússneska Koldun.

San Marínó

Senhit birtist okkur fyrst á Eurovision-sviðinu árið 2011 þegar hún flutti „Stand By“ framlag San Marínó það ár.  Henni Senhit okkar tókst því miður ekki að koma landi sínu í aðalkeppnina fyrir níu árum, en hún sat eftir í undankeppninni sinni í 16. sæti með 34 stig. Smáþjóðinni landluktu hefur reyndar ekki gengið neitt sérlega vel í keppninni, en þeim hefur þó tekist tvisvar sinnum að komast í aðalkeppnina, árið 2014 og 2019. Í bæði skiptin voru það góðkunningjar keppninnar sem komu þjóðinni áfram, þau Valentina Monetta og Serhat. Það er því aldrei að vita hvað Senhit muni takast í sinni annarri tilraun, sérstaklega í ljósi þess að lagið „Adrenalina“ hefur verið að fá góð viðbrögð bæði frá aðdáendum og veðbönkum.

Aðrir góðkunningjar

Hinn austurríski Vincent Bueno er ekki að stíga sín fyrstu Eurovision-skref í ár, en hann var í bakraddateymi Austurríkismanna árið 2017 þegar Nathan Trent komst í úrslitin með lagi sínu „Running on Air“.

Hinn norðurmakedónski Vasil er einnig kunnugur Eurovision, en hann söng bakraddir í framlagi Norður-Makedóníu árið 2019. Lagið „Proud“ var sungið af Tamöru og náði þeim merka áfanga að sigra dómarakosninguna það ár. Reyndar kom sá árangur ekki í ljós fyrr en keppni var lokið, þar sem röð mistaka gerði það að verkum að stig nokkurra dómnefnda höfðu verið reiknuð vitlaust út. Þau mistök voru þó leiðrétt og endaði Norður-Makedónía í sjöunda sæti í heildina, sem er besti árangur Norður-Makedóníu til þessa.

Hin maltneska Destiny býr yfir langri ferilskrá, bæði í Eurovision og annars staðar, þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára gömul. Hún hvorki meira né minna vann Junior Eurovision árið 2015 fyrir hönd Möltu og kom fram á Eurovision 2016 í Stokkhólmi sem þáverandi handhafi Junior Eurovision bikarsins. Hún hefur þó einnig reynslu af Eurovision-sviðinu, en hún söng bakraddir í maltneska framlaginu 2019. Lagið „Chameleon“ var sungið af Michelu og lenti í 14. sæti í úrslitunum.

Hin gríska Stefania á einnig Junior Eurovision reynslu að baki, en hún tók þátt fyrir hönd Hollands í keppninni árið 2016 sem einn þriðji af tríóinu Kisses með lagið „Kisses and Dancin‘“, sem lenti í 8. sæti. Eflaust eru einhverjir sem velta því fyrir sér hvers vegna stúlka sem var fulltrúi Hollands í Junior Eurovision sé nú fulltrúi Grikklands í Eurovision, en Stefania er fædd og uppalinn í Hollandi en er af grísku bergi brotin og ólst hún upp talandi bæði hollensku og grísku á heimili sínu.

Lagahöfundar hafa ánetjast Eurovision alveg jafn mikið og þeir sem stíga á sviðið, að minnsta kosti sumir hverjir. Í ár eru nokkrir góðkunningjar á meðal lagahöfunda. Búið var að nefna tvo félaga úr draumateyminu, þá Philipp Kirkorov og Dimitris Kontopoulos sem semja lag Moldóvu í ár. Dimitris semur reyndar einnig gríska framlagið í ár og getur hann því veifað tveimur fánum í ár. Laurell Barker er einn af lagahöfundum kýpverska lagsins en á ferilskrá hennar má finna svissneska framlagið „Stones“ frá 2018 og þýska framlagið „Sister“, svissneska framlagið „She Got Me“ og breska framlagið „Bigger Than Us“ frá 2019. Einnig var hún í höfundateyminu á bak við framlagið „Empires“, sem átti að keppa fyrir hönd Póllands 2020. Svíarnir Joy Deb og Linnea Deb eru í höfundarteyminu á bak við lög Svíþjóðar og San Marínó í ár, en þau sömdu einmitt sænsku framlögin „You“ frá 2013 og „Heroes“ frá 2015.