Hola amigos (gvöð hvað maður er internassjónal hérna!). Spænska “forkeppnin” Destino Eurovisión fór fram í Madrid á laugardaginn, og þó svo að aðeins tvö lög kepptu um titilinn, buðu Spánverjar samt upp á næstum tveggja tíma dagskrá með tilheyrandi húllumhæi.
Blas Cantó átti að keppa í fyrra með lagið “Universo”, en, já… þið vitið. En spænska sjónvarpið var nú ekki aldeilis á því að sleppa þessum viðkunnalega dreng svo glatt, og valdi hann innbyrðis til að fara fyrir hönd landsins til Hollands. Í ár fékk Blas tvö lög til flutnings, en það voru lögin “Memoria” og “Voy a quedarme” sem skyldu keppa um farmiðann. Destino Eurovisión snerist eingöngu og alfarið um Blas (réttilega) og þrátt fyrir að hafa flutt bæði lögin á fyrsta kortérinu, var afgangur kvöldsins tileinkaður hans ferli, þó svo að nokkrar aðrar stjörnur litu við, t.d tók Blas dúett með bæði hinni almáttugu Pastoru Soler sem og Edurne.
Það var hafður sá háttur á í ár, að allir og amma þeirra á gjörvallri jarðkringlunni gátu kosið á milli “Memoria” og “Voy a quedarma” og var kosningunni skipt í tvo hluta. Altso, fyrri hluti kosningarinnar hófst 10. febrúar sl og lauk í raun á laugardagsmorguninn fyrir keppni. Seinni hlutinn byrjaði svo um leið og Blas hafði lokið flutningi sínum á lögunum. Þegar búið var að loka fyrir atkvæðatalningu var það “Voy a quedarme” sem varð hlutskarpast, með 58% atkvæða.
“Voy a quedarme” er látlaus en falleg ballaða og kom Blas sjálfur að því að semja hana ásamt Leroy Sánchez, Daniel Ortega og Dan Hammond, en hann hefur unnið mikið með þessum lagahöfundum í gegnum tíðina. Blas ætlar að treysta á röddina og andrúmsloft lagsins, og skilja allt spænskt drama eftir heima að þessu sinni. Lagið sýnir líka hversu raddsterkur Blas er og hvað hann hefur lítið fyrir því að skila gallalausum flutningi.
Við munum því njóta rómantískrar latínóballöðu í maí, með einfaldri en fallegri sviðsetningu, og við bjóðum bara Blas velkominn aftur í partýið.