Pálmi Gunnarsson sjötugur


Söngvarinn og bassaleikarinn Pálmi Gunnarsson fæddist 29. september 1950 og fagnar því sjötugsafmæli í dag. Pálmi ólst upp á Vopnafirði, en býr á Akureyri í dag. Hann hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi síðan á áttunda áratug síðustu aldar og þá mest áberandi með hljómsveitinni Mannakornum eða sem sólólistamaður. Pálmi var fyrsta íslenska röddin sem hljómaði í Eurovision. Í þessum pistli verður farið nánar yfir feril Pálma í Söngvakeppninni og Eurovision.

Snemma árs 1981 var Söngvakeppni Sjónvarpsins haldin í fyrsta sinn. Keppnin var byggð á sama grunni og þekktist eftir 1986. Það var auglýst eftir nýjum lögum sem ekki höfðu komið út áður til keppni og bárust hátt í 500 lög í keppnina. Þrjátíu lög voru valin til að keppa til úrslita í fimm þáttum. Tvö lög komust áfram úr hverjum þætti og tíu lög kepptu því til úrslita þann 7. mars 1981. Björgvin Halldórsson, Ragnhildur Gísladóttir, Haukur Morthens, Helga Möller, Jóhann Helgason og afmælisbarnið Pálmi Gunnarsson sungu lögin. Það fór svo að lag sem Pálmi söng, Af litlum neista eftir Guðmund Ingólfsson sigraði. Forsvarsmenn Sjónvarpsins voru spurðir út í það hvort það væri verið að undirbúa þátttöku Íslands í Eurovision og svöruðu þeir því neitandi. Á þessum tíma gátum við reyndar ekki verið með. Það var fyrst árið 1983 sem slíkt var mögulegt því þá var komið á gerivihnattasamband og keppnin sýnd í beinni útsendingu í fyrsta sinn. Keppnin varð þó mjög vinsæl og áhorf mikið, en þótti kostnaðarsöm og því ekki haldin aftur fyrr en fimm árum síðar. Þessi keppni er sem betur fer til á alnetinu og hægt að horfa hér.

Eins og þekkt er var Söngakeppnin næst haldin árið 1986 og fóru úrslitin fram þann 15. mars. Tíu lög kepptu þá í fyrsta sinn um að verða fyrsta framlag Íslands til Eurovisionkeppninnar. Björgvin Halldórsson, Erna Gunnarsdóttir, Eiríkur Hauksson og Pálmi Gunnarsson fluttu lögin. Pálmi söng lögin Gleðibankann, Syngdu lag og Út vil ek sem Erna söng með honum. Og aftur fór lag sem Pálmi söng með sigur af hólmi. Að þessu sinni lagið Gleðibankinn eftir Magnús Eiríksson. Það var reyndar Pálmi sem átti hugmyndina að því að senda Gleðibankann í Söngvakeppnina og fékk eiginkonu Magnúsar með sér í lið. Eftir sigurinn var laginu breytt og Helga Möller og Eiríkur Hauksson gengu til liðs við Pálma og komu fram sem ICY tríóið. Gleðibankaævintýrið í Björgvin í Noregi var vissulega stórkostlegt og við vitum öll hvernig það endaði.

Biðin eftir endurkomu Pálma í Söngvakeppnina varð ansi löng, eða 30 ár. En þá flutti hann lagið Ég leiði þig heim eftir Þóri Úlfarsson í Söngvakeppninni 2016. Hann kom einnig fram í stóru upphafsatriði keppninnar þar sem hann og Helga áttu síðasta lagið í atriðinu og allir sungu með.

Til stóð að Pálmi héldi afmælistónleika bæði norðan og sunnan heiða nú í haust, en þeim hefur nú verið frestað um ár út af COVID faraldrinum. Pálmi er elsti maðurinn sem keppt hefur fyrir Íslands hönd í Eurovision og sá fyrsti sem hóf upp raust sína í keppninni fyrir land og þjóð.  Ritstjórn FÁSES.is sendir Pálma innilegar afmælisóskir í tilefni dagsins.