Eldfjall, gæsahúð, blá undirföt og óvæntur gestur


Eurovisionkeppi númer 55 fór fram í Telenor Arena í Bærum, sem er rétt fyrir utan Osló, dagana 25., 27. og 29. maí 2010. Það eru því akkúrat 10 ár í dag síðan lokakvöldið var og því rifjum við upp þessa keppni. Kynnar voru Erik Solbakken, Haddy N’jie og Nadia Hasnaoui, sem hefur verið stigakynnir fyrir Noreg eftir þetta. Meðal viðstaddra í salnum voru Eurovisiondrottningarnar Lys Assia, Regína Ósk og Friðrik Ómar. Auk þess voru bæði prins og prinsessa meðal áhorfenda, Mette Marit Noregsprinsessa og Marius sonur hennar. Jimmy Jump óð uppá svið og truflaði atriði sinnar þjóðar, Spánar, og fengu Spánverjar að flytja atriðið sitt aftur. Stúlknatríóið Feminnem sem hafði keppt fyrir Bosníu og Herzegóvínu árið 2005 sneri aftur og núna fyrir Króatíu. Niamh Kavanagh sem sigraði Eurovisionkeppnina 1993 mætti aftur og núna með lagið It´s for you og komst í úrslit.

Undirrituð og fleiri íslenskir aðdáendur voru í Osló á sinni fyrstu Eurovisionkeppni og hún er okkur því mjög eftirminnileg. Það er til dæmis eftirminnilegt að áður en keppni hófst var flutt lagið Mil Etter Mil með Jahn heitnum Tiegen sem lést í febrúar sl. Lagið fékk núll stig árið 1978 en var í 20 vikur í efsta sæti á norska listanum á sínum tíma. Þegar lagið var spilað stóð fólk upp og söng með. Þess má geta að undirbúningur að stofnun FÁSES var tekin á þessari Eurovisionkeppni. En rifjum hér upp nokkur góð lög úr keppninni.

Milan Stanković endaði í 13. sæti með lagið Ovo je Balkan. Hann fékk einnig hin lítt eftirsóttu Barbara Dex verðlaun þetta árið fyrir versta klæðaburð keppenda. Milan sló fyrst í gegn árið 2007 í söngvakeppninni Zvezde Granda. Hann er enn að í tónlist, en Ovo je Balkan er vinsælt lag meðal Eurovisionaðdáenda.

Tom Dice flutti lagið Me and My Guitar fyrir Belgíu af mikilli einlægni og varð lagið afar vinsælt. Hann varð annar í flæmsku útgáfunni af X Factor árið 2008 og þá fóru hjólin að snúast. Me and My Guitar endaði í 6. sæti sem þá var besti árangur Belga í sjö ár.

Nú tíu árum eftir þessa keppni má segja að lagið Allez Ola Olé hafi unnið titilinn partýlag ársins 2010 í Eurovision. Það var Jessy Matador sem flutti lagið sem var framlag Frakklands. Jessy er fæddur í París, en á ættir að rekja til Lýðveldisins Kongó. Lagið varð mjög vinsælt hér á landi og er enn mjög vinsælt í Eurovisionpartýum.

Það var hin þýska Lena Meyer Landrut sem sigraði Eurovision 2010 með lagið Satellite. Þjóðverjar voru þarna að vinna keppnina í annað sinn og voru liðin 28 ár frá síðasta sigri. Lena tók aftur þátt ári síðar þegar Þjóðverjar héltu keppnina í Düsselforf. Þá flutti hún lagið Taken By a Stranger og endaði í 10. sæti.

Fyrir hönd Íslands keppti Hera Björk Þórhallsdóttir með lagið Je ne sais quoi eftir hana og Örlyg Smára. Lagið endaði í 3. sæti í fyrri undankeppninni og þetta var eitt af þeim árum þar sem Ísland var í síðasta umslaginu. Lagið endaði svo í 19. sæti á sjálfu úrslitakvöldinu. Hera steig fyrst á stóra Eurovisionsviðið árið 2008 þegar hún var í bakröddum hjá Friðriki Ómari og Regínu Ósk. Ári síðar, 2009, keppti hún í Dansk Melodi Grand Prix með lagið Someday og varð þar í öðru sæti. Hera fór svo á Eurovision í Moskvu sem hluti af bakraddasveit Jóhönnu Guðrúnar. Hún var einnig í bakröddum í laginu Unbroken árið 2015. Hera snéri svo aftur í Söngvakeppninni árið 2019 með lagið Moving On og endaði í 3. sæti.

Þessi keppni fór fram stuttu eftir gosið í Eyjafjallajökli og fékk Hera Björk eldfjall á borðið hjá sér í græna herberginu einhvern tímann milli atriða. Að öðrum íslenskum Eurovisionförum ólöstuðum er Hera líklega sú vinsælasta meðal erlendra Eurovisionaðdáenda. Það var alveg ljóst í Osló að hér var stórstjarna á ferð. Pistlahöfundur sat efst upp í stúku, næst þulaherbergjunum, á úrslitakvöldinu og fagnaðarlætin þegar Hera steig á svið voru svakaleg! Salurinn iðaði allur yfir laginu, fólk söng með og dansaði. Gæsahús, tár, hjartsláttur og brauðfætur er það sem stendur eftir í minningum pistlahöfundar.