Hinn súrínamski Jeangu þroskast í Hollandi


Jeangu Macrooy var valinn af Hollendingum til að taka þátt í Eurovision á heimavelli. Hann er 27 ára gamall og fæddist í Súrinam en flutti til Hollands árið 2014 til að stunda tónlistarnám. Súrinam er einmitt gömul hollensk nýlenda og faðir Jeangu bjó um tíma í Amsterdam áður en hann flutti til Súrinam til að stofna fjölskyldu. Jeangu vinnur mikið með tvíburabróður sínum, Xillan. Jeangu er ötull baráttumaður fyrir réttindum samkynheigðra og hinsegin fólks og þó tónlistarnám hafi verið aðalástæða flutnings hans til Hollands var hluti ástæðunnar sú að honum fannst hann vera heftur í Súrínam.

Jeangu samdi sjálfur lagið Grow, sem hann hefði flutt í keppninni í ár. Lagið er sjálfsævisöguleg ballaða og fjallar um að þroskast og finna sjálfan sig. Hann syngur um að því meira sem hann læri, því minna viti hann og að nauðsynlegt sé að sætta sig við lífsins öldudali til að ná framförum og þroskast. Jeangu segir töfra tónlistar til að sameina fólk vera ástæðuna fyrir því að hann geri það sem hann geri.

Búið er að gefa út að Jeangu tekur þátt fyrir hönd Hollands í keppninni á næsta ári.