Asersk Kleópatra


Eins og hin fyrri ár halda Aserar ekki undankeppni fyrir Eurovision heldur velja lag og flytjanda bak við luktar dyr. Í ár komu fimm keppendur til greina og var það alþjóðleg dómnefnd lagahöfunda, tónlistarframleiðenda, fjölmiðlamanna, sjónvarpsframleiðenda og annarra sérfræðinga sem völdu hina 28 ára gömlu Efendi. Efendi hefur keppt í þó nokkuð mörgum hæfileika- og söngkeppnum þarna austan frá, meðal annarra The Voice, og þetta var í fimmta sinn sem hún reyndi að verða fulltrúi Aserbaísjan í Eurovision. En henni finnst ekki eingöngu skemmtilegt að syngja og dansa heldur er hún mikill unnandi málaralistar, pilates iðkunar og rekur litla kökubúð.

Lagið Cleopatra er eftir Luuk van Beers, Alan Roy Scott og Sarah Lake. Hér er á ferðinni óður til hinnar frægu drottningu Egypta þar sem nútímapoppi er blandað saman við etnískar búddamöntrur. Í laginu er notast við þrjú hefðbundin asersk hljóðfæri; oud (strengjahljóðfæri), balaban (blásturshljóðfæri) og tar (strengjahljóðfæri sem er á lista UNESCO yfir merkar menningarminjar). Það er áhugavert að geta þess að lagið Cleopatra var upphaflega eitt af fimm lögum sem Senhit ætlaði að syngja í innanhúsvali á lagi til þátttöku fyrir San Marínó. Lagið var síðan dregið úr þeirri keppni þegar Aserar ákváðu að grípa það fyrir Efendi.

Lagið er kraftmikið eins og egypska drottningin og myndbandið er varla af þessum heimi. Lagið er i anda Kleópötru og fjallar um að treysta innsæi sínu og standa á sínum rétti eins og sönn drottning. Að sjálfsögðu með snert af tvíkynhneigðum tóni eins og snjöllum Eurovisionlagahöfundum er einum lagið! Einhverjir hafa velt fyrir sér hver syngi millikafla lagsins en það er Efendi sjálf sem fer með möntruna en rödd hennar var breytt til að dýpka hana og gera hana dramatískari. Það hefði verið gaman að sjá hvernig Aserarnir hefðu leyst þetta á sviðinu því allar raddir þarf að flytja í beinni útsendingu á Eurovision sviðinu.

Ákveðið hefur verið að Efendi keppi fyrir hönd Asera í Eurovision 2021.