Fangelsi Nataliu frá Moldóvu


Moldóvska undankeppnin fyrir Eurovision fór fram í tveimur hlutum. Þeir 35 listamenn sem höfðu sent lög sín til moldóvska sjónvarpsins til að taka þátt í undankeppninni fluttu lög sín í strípaðri útgáfu fyrir dómnefnd. Upphaflega stóð til að dómnefndin veldi sigurvegarann en vegna gæða laganna sem voru flutt var ákveðið að halda 20 laga úrslit, sem urðu reyndar 19 laga úrslit, þar sem einn listamaðurinn dró sig úr keppni. Nokkrir listamannanna höfðu komið við sögu Eurovision áður; Natalia Gordienko flutti lagið Loca árið 2006, Geta Burlacu tók þátt árið 2008 með lagið A century of lovePasha Parfeny söng lagið Lăutar árið 2012 og Denis Mudone tók þátt í Junior Eurovision árið 2012 með lagið Toate for fiSigurvegarinn var valinn af sjö manna dómnefnd og atkvæðum úr símakosningu. Það var svo reynsluboltinn Natalia Gordienko sem fékk flest atkvæði beggja með laginu Prison.

Í stöðuuppfærslu á facebook gagnrýndi Pasha Parfeny, sem lenti í öðru sæti, skort á gegnsæi í keppninni og lét að því liggja að peningar hefðu eitthvað að gera með hvernig úrslit keppninnar réðust. Ásakanir um spillingu hafa verið viðloðandi moldóvsku keppnina í áraraðir en risu hæst árið 2015 þegar úkraínski keppandinn Eduard Romanyuta vann. Þá samdi Pasha Parfeny lagið í öðru sæti, sem DoReDos fluttu, en þau tóku seinna þátt árið 2018 með laginu My Lucky Day . Sunstroke Project lenti í þriðja sæti en þeir tóku þátt með epíska saxófónleikaranum árin 2010 með laginu Run Away og árið 2017 með hinu geysivinsæla Hey, Mamma!  Sunstroke Project tóku undir ásakanirnar um spillingu.

Hin 32 ára Natalia er fædd í höfuðborg Moldóvu, Chișinău. Hún stundaði píanónám og var í kór og dansflokki skóla síns. 15 ára gömul tók hún þátt í sinni fyrstu söngvakeppni en hún hefur tekið þátt í þeim mörgum innan og utan heimalandsins. Árið 2008 var hún valin heiðurslistamaður Moldóvu.

Lagið er samið af sama teymi og samdi lag Rússans Sergey Lazarev, Scream, í fyrra, Philipp Kirkorov, Dimitris Kontopoulos og Sharon Vaughn. Kirkorov er litríkur karakter, mjög hávaxinn, með augljóslega litað hár. Hann tók þátt í Eurovision fyrir Rússland árið 1995 með lagið Kolybelnaya dlya vulkana, og var eiginmaður Öllu Pugachevu, sem söng rússneska lagið Primadonna árið 1997. Þau skildu árið 2005. Kirkorov og Kontopoulos sömdu hvít-rússneska lagið Work Your Magic árið 2007 og úkraínska lagið Shady Lady með Karen Kavaleryan. Kirkorov og Kontopoulos sömdu með þremur textahöfundum lag rússnesku Tolmachevy-tvíburanna, Shine, árið 2014 og þeir sömdu rússneska lagið You Are The Only One. Kirkorov var svo meðhöfundur moldóvska lagsins My Lucky Day árið 2018.

Árið 2009 neyddist Kirkorov til að segja af sér sem formaður rússnesku dómnefndarinnar eftir að upp komst að hann hafði snætt kvöldverð með norska keppandanum Alexander Rybak og stillt sér upp fyrir myndavélar með gríska goðinu Sakis Rouvas, sem þá keppti með lagið This Is Our Night og kom í ljós að hafði verið vinur Kirkorov í mörg ár. Til að flækja hlutina enn frekar þá var lagahöfundur Sakis áðurnefndur Kontopoulos.

Kontopoulos hefur auk áðurnefndra laga samið lag Azerbaídsjan frá árinu 2013, Hold Me, sem lenti í öðru sæti það ár, gríska lagið frá árinu 2017, This is Love, aserska lagið frá 2018, X my Heart auk gríska lagsins í ár, Superg!rl, sem hann samdi með Sharon Vaughn.

Ljóst er að miðað við hverjir standa að laginu hefði moldóvska atriðið verið mikið sjónarspil en ekki hefur verið gefið út hvort Natalia fer fyrir hönd Moldóvu í keppnina að ári.