Voda! – Ana Soklic ætlar í vatnsslag fyrir hönd Slóveníu í Rotterdam.


Slóvenar hafa verið með í Eurovision síðan 1993, rétt eins og nágrannalöndin Bosnía og Króatía. Þeim hefur svo sem ekki gengið neitt áberandi vel og hafa hæst komist í 7. sætið. Þangað komust þeir bæði árið 1995 þegar Darja Svajger flutti lagið “Prisluhni Me” í Dublin og svo aftur árið 2001, en það var söngkonan Nusa Derende sem flutti orkuslagarann “Energy” eftirminnilega í Kaupmannahöfn og skilaði Slóvenum inn á topp tíu. Þessi ágæta Balkanþjóð er nú fremur róleg yfir þessu öllu saman og sjaldan eins róleg og í fyrra, þegar krakkakrúttin Zala og Gaspar fóru í þriggja mínútna störukeppni í Tel Aviv og lentu í 15. sæti. En nýtt ár þýðir nýtt framlag!

Slóvenar rúlluðu forkeppninni EMA 2020 af stað þann 22. febrúar sl. þar sem tólf lög kepptu um farmiðann til Schiphol og þaðan til Rotterdam. Meðal flytjenda mátti sjá kunnuglegt andlit en söngkonan Tinkara Kovac sem keppti í Kaupmannahöfn árið 2014 með lagið “Round and Round” og luftflautaði á þverflautu með, var mætt aftur. Því miður hafði hún ekki erindi sem erfiði að þessu sinni. Engu að síður voru það kvenskörungar miklir sem réðu keppninni í ár. Eftir að öll lögin höfðu verið flutt var það þriggja manna dómnefnd sem ákvað að senda Önu Soklic með ballöðuna “Voda” og Linu Kuduzovic með RnB slagarann “Man like U” í einvígið. Þegar þangað var komið voru það slóvenskir áhorfendur sem réðu úrslitum. Þau réðust svo þannig að Ana hafði sigur, með rúm 53% atkvæða.

Til gamans má geta að dómnefndin var einmitt skipuð áðurnefndum Dörju Svajger og Nusu Derende. Þriðji meðlimurinn var svo dívan Maja Keuc, en við munum öll eftir henni frá Düsseldorf. Einnig VERÐUR að minnast á snilldarlegt og meinfyndið biðstofuatriðið (nýtt íslenskt orð yfir interval act). Það var í höndum slóvenska grínistans og leikarans Klemen Slakonja, sem sá um að kynna EMA í ár. Hann gerði sér bara lítið fyrir og endurlék öll slóvensk framlög frá 1993 og til dagsins í dag. Með förðun, danssporum, búningaskiptum og öllum pakkanum. Og söng allt sjálfur líka. Amen.

Þær eru ekki miklar upplýsingarnar um hana Önu Soklic en við vitum þó að hún er 36 ára gömul. Hún hefur verið að gera tónlist síðan 2004  en þá kom út fyrsta lagið hennar “If You” í heimalandinu. Hún virðist þó afskaplega viðkunnaleg og lagið “Voda” eða vatn, eins og það heitir á íslensku, er alveg hreint ágætis ballaða, þó svo það falli ekki alveg í Balkanballöðuflokkinn. Ana er hörkusöngkona og á eflaust eftir að skila sínu hnökralaust á sviðinu í Rotterdam.