Athena Manoukian vinnur Depi Evratesil 2020 í Armeníu með “Chains on you”


Armenía mætti loksins til leiks í Eurovision fyrir heilum fermingaraldri síðan, eða árið 2006. Í þessi fjórtán skipti hafa þeir einungis þrisvar sinnum setið eftir með sárt ennið í undanúrslitunum, nú síðast í Tel Aviv, þegar Srbuk labbaði út af sviðinu og heim aftur, þrátt fyrir sterkan og tilfinningaríkan flutning. Það má því segja að Armenía sé ein af sterkari þjóðunum í keppninni, ef við lítum aðeins á tölfræðina…sem við ætlum ekki að gera, því þetta snýst um tónlist!

AMPTV, ríkisstöð Armena, hefur oftar en ekki valið keppanda sinn innbyrðis, en stundum eru þeir í stuði fyrir eitthvað annað og meira, og árið 2016 kynntu þeir söngkeppnina Depi Evratesil til sögunnar, sem er eingöngu og alfarið hönnuð til að velja fulltrúa fyrir Eurovision. Fyrsti sigurvegari þeirrar keppni var söngkonan Artsvik, sem flutti hið ógleymanlega lag “Fly with me” í Kænugarði vorið eftir en hlaut ekki mikla náð fyrir augum Evrópu. En fólk áttaði sig á því að það var ekki svo galið að skella í eina svona forkeppni endrum og sinnum, og svo virðist sem AMPTV hafi ákveðið að hafa Depi Evratesil annað hvert ár, en velja svo innbyrðis þess á milli. Og í ár var það forkeppni, heillin.

Tólf keppendur börðust um miðann til Rotterdam, en söngkonan Athena Manoukian sem var sterklega orðuð við fyrsta sætið strax í upphafi, varð hlutskörpust í lok kvöldsins með lagið “Chains on you”, en hún vann yfirburðarsigur og halaði inn heil 168 stig, á meðan lagið í öðru sæti var með 120 stig. Það var ekkert verið að finna upp hjólið í kosningafyrirkomulaginu, en það voru einfaldlega samanlögð stig almennings og dómnefnda sem réðu úrslitum. Dómnefndirnar voru að vísu tvær, önnur alþjóðleg og hin armensk. Það er ekki alveg ljóst hverjir sátu í alþjóðlegu dómnefndinni en í þeirri armensku mátti allavega sjá hana Anush, sem við munum öll eftir úr systradúóinu Inga&Anush frá árinu 2009.

Athena Manoukian er 25 ára gömul og er fædd í (haha) Aþenu í Grikklandi, af armenskum foreldrum og ólst þar upp. Hún byrjaði feril sinn árið 2007, einungis 13 ára gömul þegar hún vann hæfileikakeppni á vegum sérrekinnar grískrar sjónvarpsstöðvar. Árið eftir keppti hún svo í forvali Grikkja til Junior Eurovision Song Contest, og endaði í 7. sæti. Árið 2011 var Athena þó tilbúin í eitthvað meira fullorðins og gaf út lagið “Party like a freak”, sem varð vægast sagt stórsmellur í Grikklandi og sat á toppi ýmissa vinsældarlista þar og var meira að segja tilnefnt til allavega tveggja verðlauna á alþjóðlegu Video Music Awards verðlaunahátíðinni 2012. Síðan þá hefur leið Athenu verið greið í fósturlandinu Grikklandi, og hún lét ekki þar við sitja, heldur hefur náð ótrúlegum vinsældum í Asíu, Ástralíu og Ameríku. Og sem lagahöfundur er hún ekkert slor heldur, en hún hlaut platínuverðlaun fyrir lagið “Palia mou agapi” árið 2017, en það lag var flutt af engri annarri en Helenu Paparizou!

Hún hefur oft verið orðuð við Eurovision fyrir heimalandið Armeníu, en aldrei látið verða af því fyrr en núna. Athena sagði sjálf að hún hefði alltaf haft mikinn áhuga á að fara í keppnina, hvort sem það væri fyrir hönd Armeníu, Grikklands eða Kýpur. Sama hvaðan gott kemur, ekki satt? Og nú er svo sannarlega kominn tími fyrir Athenu Manoukian til að láta ljós sitt skína með poppslagarann “Chains on you”, sem er undir sterkum áhrifum frá Rihönnu, Beyoncé og Lady Gaga. Demantadrottningin frá Armeníu er mætt og hún ætlar alla leið!