Er “The Best in me” næsta Euphoria?


Þá er komið að Frökkum að kynna sitt framlag. Þeir hafa átt í vandræðum með að finna réttu uppskriftina fyrir Eurovision upp á síðkastið en hafa þó unnið fimm sinnum. Það er orðið ansi langt síðan sigurinn fór til Frakklands, en það var árið 1977 með laginu L’oiseu et I’enfant með Marie Myriam. Frá 2010 hefur Frökkum aðeins einu sinni tekist að komast á topp 10 en það var hann Amir sem tók þátt 2016 í Stokkhólmi og lenti þar í 6. sæti. Síðustu tvö ár hafa Frakkar haldið glæsilega forkeppni þar sem lögin sem flutt voru áttu fínu gengi að fagna. Því var það mikil vonbrigði fyrir aðdáendur að franska sjónvarpsstöðin France 2 ákvað að fara aftur í að velja flytjanda og lag án forkeppnar. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem France 2 býður erlendum lagahöfundum einnig að taka þátt. Ef þið eruð sleip í frönskunni þá er hægt að lesa grein þar sem farastjóri Frakka Alexandra Redde-Amiel greinir frá því hvernig lagið var valið. Það kemur í hlut hins þrítuga Tom Leeb að flytja franska Eurovision lagið The best in me sem verður sungið á ensku og frönsku.

Hinn gullfallegi Tom Leeb, sem er fæddur í París 1989, er ekki aðeins söngvari heldur einnig lagahöfundur og grínisti. Faðir hans Michael Leeb er frægur grínisti og systir hans tók þátt í The Voice 2013. Þeir feðgar unnu nýlega saman í sviðsuppfærslu á Mrs. Doubtfire. Tom er einnig með Youtube rás með Kevin Levy þar sem hann syngur og leikur í grínatriðum.

Frakkar ætla að tjalda öllu til og hafa fengið landslið Svía í lagasmíði til að skrifa lagið. Við erum að sjálfsögðu að tala um þá Peter Boström og Thomas G:son. Það er bara eitt orð sem allir ættu að geta tengt þá við Eurovision og það er “Euphoria”, eitt allra vinsælasta lag sem hefur verið samið í sögu keppninnar. Frökkum fannst greinilega ekki nóg að hafa þá tvo í að semja því bæði John Lundvik (Svíþjóð 2019) og Amir (Frakkland 2016) koma að textasmíðum lagsins. Þau Tom Leeb og Lea Ivanne eru einnig titluð í höfundagenginu.

Hér heyra fallega kraftballöðu sem margir myndu tengja við sænsku undankeppnina fyrir Eurovision, Melodifestivalen. Það má ef til vill segja að hér sé ekki um að ræða næsta Euphoria lag en sænsku áhrifin má greinilega heyra. Það er síðan spurning hvenær komið sé nóg af sænskum áhrifum í Eurovision. Gott eða slæmt? Það kemur í ljós hvað Evrópa segir en við bjóðum Tom Leeb velkominn í Eurovision fjölskylduna.

Stúdíóútgáfuna af laginu má finna hér fyrir neðan en ef þú ert spennt/ur þá getur þú einnig séð frumflutninginn á laginu, þar sem öllu var tjaldað til og Tom Leeb söng á toppi á Eiffelturnsins.