Litháen: Ofurhresst indí rokk og sterk skilaboð frá THE ROOP


Litháar hafa verið með í Eurovision síðan 1994 og eru eina Eystrasaltsþjóðin sem ekki hefur ennþá marið sigur í keppninni. En samt hafa þeir komist oftar áfram í aðalkeppnina en nágrannar þeirra í Eistlandi og Lettlandi. Þeim þykir því kominn tími til að eitthvað gerist í þessum málum. Þeir hafa tvisvar sinnum verið á topp tíu. Fyrst árið 2006, þegar að sveitin LT United semí sendi Evrópu puttann og hélt því fram að þeir væru sko sigurvegararnir. Evrópa fattaði brandarann og sveitin endaði í 6. sæti í Aþenu. Síðan var það hrokkinkollurinn Donny Montell sem söng sig alla leið í 9. sætið í Stokkhólmi 2016. En heilt yfir mætti þessari viðkunnalegu þjóð samt alveg ganga betur, þar sem þeir hafa teflt fram mörgum af ógleymanlegri framlögum seinni ára en hafa ekki alltaf fengið verðskuldaða viðurkenningu. Hóst….Eastern European Funk..hóst!.

Lengi vel framan af völdu Litháar framlag sitt í gegnum langlokuna Eurovizijos Atranka sem innihélt fleirihundruð og fimmtíu forvöl, forkeppnir, undankeppnir, einvígi o.s.frv, og þegar allir voru við það að missa lífsviljann, smelltu þeir í eitt stykki aðalkeppni. En í ár þótti litháíska sjónvarpinu vera komið nóg af svo góðu og gjörbreytti forvalinu. Í stað sirka 57 forkeppna, voru nú einungis þrjú forvöl og tvær undankeppnir og það var m.a.s skipt um nafn í leiðinni. Eurovizijos Atranka heitir nú Papadom is nauju:2020 og í gærkvöldi kaus þjóðin kvartettinn THE ROOP til að keppa fyrir hönd sína í Rotterdam.

Átta lög kepptu til úrslita í Vilníus í gærkvöldi og að vanda samanstóð kosningin af atkvæðum almennings og dómnefndar. Oft hafa þessir tveir hópar alls ekki verið sammála en að þessu sinni voru bæði dómnefnd og litháíska þjóðin á einu máli. THE ROOP skyldi til Rotterdam með ofurhressa og skemmtilega indírokk slagarann “On fire”. Í öðru sæti varð svo söngkonan Monique, sem er ekki ókunnug þegar kemur að því að reyna við Eurovision, því hún virðist hreinlega vera búin að eyrnamerkja sér annað sætið hvar sem hún er. Angastelpan. Alltaf brúðarmær, aldrei brúðurin.

THE ROOP sérhæfir sig í gamansömu indí rokki og árið 2018 lentu þeir í þriðja sæti í Eurovizijos Atranka en þurftu að lúta í lægra haldi fyrir Ievu Zazimauskaite. Þeir Vaidotas, Robertas, Mantas og Vainius stofnuðu sveitina í Vilníus fyrir nokkrum árum. Eftir að hafa keppt í forkeppninni heima við árið 2018 með lagið “Yes, I do”, hefur litháíska sjónvarpið bókstaflega grátið utan í þeim og beðið þá um að snúa aftur. Strákarnir ákváðu að láta slag standa í ár, og sjá svo sannarlega ekki eftir því, þar sem þeir eru nú komnir með miðana til Rotterdam í hendurnar. Að sögn Vaidotas Valiukevicius, forsprakka sveitarinnar, fjallar texti “On Fire” um þá tilhneigingu okkar að afskrifa okkur sjálf alltof fljótt, vegna þess að við séum ekki nógu góð, ekki nógu gáfuð, ekki nógu hæfileikarík, of ung, of gömul o.s.frv. Og THE ROOP vill einfaldlega að við hættum svoleiðis rugli! “Ég hef séð þetta allt of oft, sérstaklega hjá ungum tónlistarmönnum sem eru að reyna að koma sér á framfæri, en gefast fljótlega upp, því þeir missa trúna á sjálfa sig. En það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast!”, segir Vaidotas.

En þrátt fyrir merkingarþrungin texta er lag og sviðsframkoma sveitarinnar ekkert nema léttleikinn. “On fire” tekur sjálft sig ekkert of alvarlega að mörgu leiti og Vaidotas og félagar leika sér hreinlega á sviðinu. Pakka öllu snyrtilega inn í skrítnar og skemmtilegar danshreyfingar sem eflaust munu sjást í ýmsum útgáfum á dansgólfum í Rotterdam. Það er greinilegt að þeir hafa einstaklega gaman af því sem þeir eru að gera.

Litháar koma því til Hollands með ofurhresst indí rokk með alvarlegum undirtóni og mikið svakalega hlökkum við til að fylgjast með THE ROOP á komandi mánuðum, því þessir gaurar eru klárlega bæði með hjartað á réttum stað, sem og sterka húmortaug.